STEINGRÍMUR Jóhannesson, miðherji Eyjamanna, gerði harða hríð að 38 ára gömlu meti Þórólfs Beck, er hann skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV í fyrstu umferð efstu deildar í knattspyrnu er Eyjamönn lögðu Leiftursmenn 5:0 í Eyjum á fimmtudagskvöldið. Þórólfur Beck vann það afrek 28.


KNATTSPYRNA

Steingrímur gerðiatlögu að 38 ára

meti Þórólfs Beck

STEINGRÍMUR Jóhannesson, miðherji Eyjamanna, gerði harða hríð að 38 ára gömlu meti Þórólfs Beck, er hann skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV í fyrstu umferð efstu deildar í knattspyrnu er Eyjamönn lögðu Leiftursmenn 5:0 í Eyjum á fimmtudagskvöldið. Þórólfur Beck vann það afrek 28. maí 1961 að skora fimm mörk í fyrstu umferð ­ þegar KR lagði Íþróttabandalag Akureyrar, ÍBA, að velli á Laugardalsvellinum 6:3. Sá leikur var jafnframt fyrsti leikur Íslandsmótsins það ár.

Þórólfur var svo góður í leiknum, að leikur hans minnti á lítið barn, sem fær óhindrað að leika sér í sandkassa. Eitt mark hans var afar glæsilegt ­ hann tók knöttinn niður með bringunni og þrumaði knettinum viðstöðulaust í netið.

Steingrímur varð sjötti Eyjamaðurinn til að skora fjögur mörk í leik, en metið hjá ÍBV á Sumarliði Árnason, sem skoraði fimm mörk í Eyjum, þegar ÍBV vann Þór 1994, 6:1. Sumarliði skoraði bæði mörk Víkings, sem vann Keflavík óvænt á fimmtudagskvöldið, 2:1.

Fyrsti Eyjamaðurinn til að skora fjögur mörk í leik var Haraldur "gullskalli" Júlíusson, sem vann það afrek í leik gegn Víkingi í Reykjavík 1970. Óskar Valtýsson skoraði síðan fjögur mörk gegn Breiðabliki í Eyjum 1971, Sigurlás Þorleifsson var á skotskónum í Eyjum 1976, er hann skoraði fjögur mörk gegn KA og Tryggvi Guðmundsson skoraði einnig sín fjögur mörk í Eyjum, í leik gegn Val 1995.

Fyrir utan áðurnefnda leikmenn ÍBV hafa fjórir aðrir Eyjamenn náð þrennu í leik ­ að skora þrjú mörk eða fleiri; Tómas Pálsson, Örn Óskarsson, Hlynur Stefánsson og Sverrir Sverrisson.