NÁTTÚRUVERNDARSAMTÖK Íslands hafa sent Skipulagsstofnun ríkisins athugasemdir við frummatsskýrslu á umhverfisáhrifum vegar nr. 56 yfir Vatnaheiði á Snæfellsnesi. Frummatsskýrslan var unnin af VSÓ fyrir Vegagerðina í mars 1999. Athugasemdirnar fara hér á eftir: "Samtökin leggjast alfarið gegn hugmyndum um nýjan veg yfir Vatnaheiði.
Leggjast gegn hugmyndum um veg yfir Vatnaheiði

NÁTTÚRUVERNDARSAMTÖK Íslands hafa sent Skipulagsstofnun ríkisins athugasemdir við frummatsskýrslu á umhverfisáhrifum vegar nr. 56 yfir Vatnaheiði á Snæfellsnesi. Frummatsskýrslan var unnin af VSÓ fyrir Vegagerðina í mars 1999. Athugasemdirnar fara hér á eftir:

"Samtökin leggjast alfarið gegn hugmyndum um nýjan veg yfir Vatnaheiði. Hið fyrirhugaða vegarstæði er eitt stærsta ósnortna náttúrusvæði á Snæfellsnesi. Um er að ræða gróskumikið votlendi, sem er að hluta á náttúruminjaskrá, prýtt fágætum og einstaklega fögrum jarðmyndunum (Berserkjahraun og gígarnir Grákúla og Rauðkúla). Umrætt svæði er nú vinsælt útivistarsvæði.

Mikilvægi þess að hlífa náttúrugæðum sem þessum eykst stöðugt. Slík náttúrugæði verða jafnan ekki endurheimt heldur eyðilögð um alla framtíð sé hróflað við þeim með meiriháttar mannvirkjagerð, jarðefnavinnslu og umbroti á landi.

Samtökin gagnrýna að náttúru- og útivistargildi svæðisins er stórlega vanmetið í frummatsskýrslunni. Vegargerð þar stríðir bæði gegn ákvæðum nýrra náttúruverndarlaga um sérstaka vernd landslagsgerða, sem eru einkennandi fyrir Ísland, og skuldbindingum Íslands gagnvart sáttmála Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (7. grein), sem samþykktur var í Ríó 1992. Þá telja Náttúruverndarsamtökin að meintur vegtæknilegur ávinningur sé umdeilanlegur, enda skorti rannsóknir þar að lútandi.

Náttúruverndarsamtökin telja endurbætur á núverandi leið um Kerlingarskarð (Kostur B) mun vænlegri kost. Þó ber að huga að útfærslu þeirrar leiðar. Einkanlega að norðanverðu þar sem helstu samgönguvandamálin eru. Samtökin telja óviðunandi að fórna náttúrugæðum Vatnaheiðar og Berserkjahrauns vegna farartálma sem upp kemur endrum og sinnum á mjög takmörkuðum vegkafla að vetrarlagi."