Stykkishólmi­ Dvalarheimilinu í Stykkishólmi var nýlega afhent stórgjöf frá erfingjum Magnúsínu Magnúsdóttur frá Breiðafjarðareyjum. Magnúsína var með fyrstu heimilismönnum á dvalarheimilinu og bjó þar í 20 ár, en hún dó 18. mars sl. Hún fæddist árið 1909 hefði því orðið 90 ára þann 17. maí.
Vegleg gjöf til Dvalarheimilisins í Stykkishólmi

Stykkishólmi ­ Dvalarheimilinu í Stykkishólmi var nýlega afhent stórgjöf frá erfingjum Magnúsínu Magnúsdóttur frá Breiðafjarðareyjum. Magnúsína var með fyrstu heimilismönnum á dvalarheimilinu og bjó þar í 20 ár, en hún dó 18. mars sl. Hún fæddist árið 1909 hefði því orðið 90 ára þann 17. maí. Af því tilefni komu aðstandendur hennar saman á dvalarheimilinu til að heiðra minningu hennar og færðu því að gjöf peninga að upphæð 1.100.000 króna og skal peningunum varið til tækjakaupa í eldhúsi dvalarheimilisins. Svanborg Siggeirsdóttir gerði grein fyrir tilefni gjafarinnar fyrir hönd aðstandenda og Ásta Jónsdóttir, systurdóttir hennar, þakkaði starfsfólki fyrir góða umönnun og hlýju. Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri tók við gjöfinni og þakkaði gefendum. Hann sagði að gjöfin kæmi sér vel því að á þessu ári verður byrjað að stækka borðsal dvalarheimilis og endurbæta eldhúsaðstöðu, sem hefur að mestu verið óbreytt frá upphafi þegar starfrækt var heimavist grunnskólans í þessu húsnæði.

Magnúsína fæddist á Bolungarvík, en fljótlega fluttist hún út í Breiðafjarðareyjar þar sem faðir hennar missti sjón er hún var sjö ára gömul og gat ekki séð fyrir stórri fjölskyldu. Magnúsína dvaldist mikið í Flatey og síðar í Svefneyjum. Fljótlega eftir að hún flytur til Stykkishólms fór hún á dvalarheimilið og bjó þar til dauðadags.

Morgunblaðið/Gunnlaugur ERFINGJAR Magnúsínu Magnúsdóttur færðu dvalarheimilinu peningagjöf í tilefni 90 ára afmælis hennar. Myndin er tekin við það tækifæri. Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri, Kristín Björnsdóttir forstöðukona og Ásta Jónsdóttir og Svanborg Siggeirsdóttir, fulltrúar aðstandenda.