BANDARÍSKU hjónin Jaja og Dave Martin, sem dvöldu í skútunni Driver ásamt börnum sínum, Chris, 9 ára, Holly, 7 ára, og Teiga, 3 ára, við Akureyrarhöfn síðastliðinn vetur, dvöldu í sólarhring í Grímsey nýlega. "Við voru hér í Grímsey í tíu daga síðasta haust og urðum að koma hingað aftur áður en við færum frá Íslandi," sagði Dave Martin.
Martin-fjölskyldan hafði viðkomu í Grímsey á leið til Færeyja Ást við fyrstu sýn er

við litum Ísland augum

Grímsey. Morgunblaðið.

BANDARÍSKU hjónin Jaja og Dave Martin, sem dvöldu í skútunni Driver ásamt börnum sínum, Chris, 9 ára, Holly, 7 ára, og Teiga, 3 ára, við Akureyrarhöfn síðastliðinn vetur, dvöldu í sólarhring í Grímsey nýlega.

"Við voru hér í Grímsey í tíu daga síðasta haust og urðum að koma hingað aftur áður en við færum frá Íslandi," sagði Dave Martin. Hann sagði að það væri sérstök tilfinning að vera í Grímsey vegna legu eyjarinnar, það að geta horft suður yfir til landsins væri stórfenglegt vegna hins fjölskrúðuga fuglalífs og ekki síður vegna íbúanna sem þeim þykja svo rólegir og yfirvegaðir.

"Grímsey er að líkindum kyrrlátasta eyjan sem við munum heimsækja í bráð," bætti Dave við. "Það varð ást við fyrstu sýn þegar við litum Ísland augum og okkur þykir gestrisni og alúðlegt viðmót einkenna Íslendinga," sagði Jaja Martin.

Akureyringar vinsamlegir

Fjölskyldan vill þakka öllum þeim sem tóku á móti þeim á leiðinni norður frá Reykjavík og nefndu sérstaklega Vestfirðina í því sambandi. Þau þakka Akureyringum frábærar móttökur og sérstakar þakkir senda þau Brekkuskóla, þar sem frábærlega vel var tekið á móti þeim öllum og þá sérstöku hlýju og nærgætni sem börnunum var sýnd. Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri, Íslandspósts og Sundlaugar Akureyrar fær einnig þakkir frá fjölskyldunni.

"Það er áberandi hvað Akureyringar eru vinsamlegir og hjálpsamir. Okkur var alls staðar vel tekið og komum hvarvetna að opnum dyrum," sagði Dave. "Við förum frá Íslandi með yndislegar minningar. Á þeim tólf árum sem við höfum ferðast um heiminn var erfiðast að kveðja Ísland, við kveðjum með tár í augum," bætti Jaja við.

Dvelja í Danmörku næsta vetur

Ferð Martin-fjölskyldunnar er heitið til Færeyja þar sem þau áætla að dvelja í um tvær til þrjár vikur. Á leiðinni ætla þau að sigla til Norðfjarðar með viðkomu á Raufarhöfn. Frá Færeyjum halda þau síðan til Skotlands og Noregs og ráðgera að dvelja í Danmörku næsta vetur.

Morgunblaðið/Margit Elva Einarsdóttir