VINNAN, málgagn Alþýðusambands Íslands, gerir að umtalsefni mál er varðar friðhelgi einkalífs á vinnustað, en nýlega féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem starfsmaður höfðaði mál gegn íslenzka ríkinu í svokölluðu "Navy Exchange"-máli.
Sigur í prófmáli um friðhelgi einkalífs á vinnustað VINNAN, málgagn Alþýðusambands Íslands, gerir að umtalsefni mál er varðar friðhelgi einkalífs á vinnustað, en nýlega féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem starfsmaður höfðaði mál gegn íslenzka ríkinu í svokölluðu "Navy Exchange"-máli. Í VINNUNNI segir: "Samkvæmt nýföllnum dómi héraðsdóms Reykjavíkur er myndavélaeftirlit með starfsmönnum óheimilt án vitundar þeirra. Dómurinn féll í máli Árna Þórs Lárussonar gegn íslenska ríkinu í svokölluðu Navy Exchange-máli. Hér er í rauninni um að ræða prófmál um réttindi starfsmanna til "einkalífs" á vinnustað. Kröfur Árna voru teknar til greina og íslenska ríkinu gert að greiða skaðabætur (200.000) og málskostnað (130.000), að viðbættum vöxtum frá því málið var þingfest fyrir tæpu ári." Helstu málsatvik OG VINNAN heldur áfram: "Málið snerist um það hvort heimilt hafi verið að setja upp myndavélar til að fylgjast með störfum starfsfólks í verslun Navy Exchange á Keflavíkurflugvelli. Stefnandi var á þessum tíma birgðastjóri í versluninni og hafði verið um nokkurra ára skeið. Myndavélar voru settar upp með leynd vegna rannsóknar á birgðarýrnun í versluninni. Ekki var aflað dómsúrskurðar áður en eftirlitið hófst, í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála. Við eftirlitið voru notaðar tvær myndavélar, þ.m.t. í lokuðu herbergi sem starfsmenn höfðu aðgang að. Alls stóð "eftirlitið" frá 14. nóvember 1996, þar til starfsmenn fundu aðra myndavélina í janúar 1997. Stefnandi telur sig að ósekju hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna málsins." Ætti að tryggja að svona gerist ekki aftur LOKS segir í Vinnunni um þennan dóm: "Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, segir dóminn afar mikilvægan. "Það er ekki sektin sem skiptir máli, heldur sú efnislega niðurstaða að það sé óheimilt að fylgjast með þessum hætti með starfsfólki við störf án vitundar þess. Dómurinn hlýtur að koma í veg fyrir að svona atvik endurtaki sig, ekki bara hjá verslunarfólki heldur launafólki almennt. Það er í rauninni kjarni málsins og í því felst mikilvægi niðurstöðunnar.""