ÞANN 28. maí næstkomandi verður haldin í Háskólabíói alþjóðleg ráðstefna um nýsköpun, vöruþróun og hönnun. Á ráðstefnunni, sem verður sett af forseta Íslands, munu tíu erlendir og innlendir fyrirlesarar fjalla um viðfangsefnið frá ólíkum sjónarmiðum.
ÐRáðstefna um nýsköpun, vöruþróun og hönnun

ÞANN 28. maí næstkomandi verður haldin í Háskólabíói alþjóðleg ráðstefna um nýsköpun, vöruþróun og hönnun. Á ráðstefnunni, sem verður sett af forseta Íslands, munu tíu erlendir og innlendir fyrirlesarar fjalla um viðfangsefnið frá ólíkum sjónarmiðum.

Ráðstefnan kallast Getting Ahead og er hún samvinnuverkefni véla- og iðnaðarverkfræðiskorar Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Iðntæknistofnunar. Í fréttatilkynningu segir að framsækin fyrirtæki hafi gert sér grein fyrir mikilvægi vöruþróunar og hönnunar, og með tilkomu Nýsköpunarsjóðs hafi opnast nýjar leiðir í fjármögnun þróunarverkefna. Með ráðstefnunni vilji aðstandendur hennar efla umræðu í þjóðfélaginu og auka samvinnu og skilning milli ólíkra fagsviða og viðhorfa.

Á ráðstefnunni verður m.a. kynning á markvissum starfsháttum íslenskra og amerískra fyrirtækja, stefnumótun með hönnun í alþjóðafyrirtækinu Philips og framsæknum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum hér heima og erlendis. Ráðstefnugestum gefst kostur á að taka þátt í umræðum um framtíðarþróun og hvernig tryggja megi að íslensk fyrirtæki og þróunarverkefni séu jafnan í fararbroddi.

Ráðstefnan er haldin í tengslum við norrænt málþing, sem styrkt er af NORFA (Norrænu rannsóknarakademíunni).