Ég fæ ekki betur séð, segir Ómar Þ. Ragnarsson, en að bann við ólympískum hnefaleikum einum og sér feli í sér misrétti milli íþróttagreina.
Á að banna skylmingar vegna vígs Gunnars á Hlíðarenda? Hnefaleikar Ég fæ ekki betur séð, segir Ómar Þ. Ragnarsson , en að bann við ólympískum hnefaleikum einum og sér feli í sér misrétti milli íþróttagreina. TVEIR valinkunnir heiðursmenn, Leifur Sveinsson og Marteinn B. Björgvinsson, hafa með skömmu millibili ritað greinar í Morgunblaðið þar sem þeirri ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins að leyfa ólympíska hnefaleika á Íslandi er mótmælt. Leifur byggði rök sín meðal annars á því að hann hefði séð ólympíska hnefaleika í Helsinki árið 1952 og rakti síðan feril nokkurra ólympíumeistara, sem gerðust atvinnumenn, máli sínu til stuðnings. Marteinn færir alvarleg meiðsli sem hann hlaut af völdum iðkunar hnefaleika á Íslandi fyrir fimmtíu árum sem rök fyrir því að ekki skuli leyfa ólympíska hnefaleika hér nú. Báðir falla þessir menn í þá gryfju að byggja álit sitt á því í hvaða formi áhugamannahnefaleikar voru stundaðir fyrir hálfri öld. En síðan þá hefur form ólympískra hnefaleika breyst svo mikið að hvergi í heiminum nema hér er talin ástæða til þess að banna þá í nútímaformi, þótt atvinnuhnefaleikar með gamla laginu séu bannaðir í nokkrum löndum. Fram fóru ítarlegar læknisfræðilegar rannsóknir í Bandaríkjunum, Kanada og Svíþjóð á ólympískum hnefaleikum til þess að komast að því hvort ástæða væri til að banna þá og niðurstaðan varð sú, að ekki lægju fyrir rök fyrir banni. Og hvers vegna? Jú, í ólympískum hnefaleikum með nútímasniði eru tuttugu sinnum minni meiðsli en í þeim hnefaleikum, sem þeir Leifur og Marteinn fjalla um og voru bannaðir hér á landi árið 1956. Núna eru notaðar höfuðhlífar og aðrir hanskar, loturnar eru styttri og miklu færri, öryggiskröfur eru auknar og ekkert stig er gefið fyrir að slá andstæðinginn í gólfið, sem reyndar er afar sjaldgæft. Það er beinlínis rangt hjá Marteini að í ólympískum hnefaleikum þurfi menn að þola stanslausa höggahríð. Síðastliðið sumar voru sýndir á Sýn margir klukkutímar af ólympískum hnefaleikum á heimsleikum sem undirritaður lýsti. Gefin voru stig með því að telja þau högg, sem dómararnir voru sammála um að rötuðu í gegnum varnir hnefaleikaranna. þau voru sárafá, yfirleitt innan við tíu hjá hvorum í heilli viðureign og flest af þeim skrokkhögg, því í þessum hnefaleikum er vörnin höfuðatriði. Í sumum lotunum rataði ekkert högg í gegn! Klukkustundum saman urðu keppendur ekki fyrir neinum meiðslum! Um svipað leyti voru sýndar myndir af íslenskum handboltaleikjum þar sem stöðva varð hvern einasta leik margsinnis vegna meiðsla. Í einum leiknum var handboltakona rotuð svo kirfilega að hefði það gerst í hnefaleik hefði þurft að telja upp að minnst þrjátíu! Meiðsli í ólympískum hnefaleikum með nútímasniði eru minni en í knattspyrnu, ísknattleik, handbolta, körfubolta og kappakstri. það er rétt hjá Marteini að meðal breskra lækna eru uppi efasemdir og hugmyndir um að banna ólympíska hnefaleika og skallabolta í knattspyrnu. Mér vitanlega liggja þó ekki viðurkenndar rannsóknir að baki slíku. Það skal skýrt tekið fram að ég er algerlega sammála þeim Leifi og Marteini um að banna hér á landi þá hnefaleika sem þeir kynntust fyrir hálfri öld.

Ég er líka meðmæltur því að bannað sé að berjast með sverðum með sama hætti og fornmenn gerðu. En það þýðir ekki að ég myndi mæla með banni á skylmingum í nútímaformi vegna þess að Gunnar á Hlíðarenda hefði verið veginn með eggvopni. Þetta mál snýst um jafnrétti íþróttagreina því hnefaleikar eru í raun tíðkaðir á Íslandi ef þeir heita austrænum nöfnum. Hér er iðkað og kennt jít kuna dó, taílensk íþrótt sem heitir nú reyndar kick-box á ensku. Í henni er barist með hönskum en einnig leyfð spörk. Í ólympísku íþróttinni tæ kvan dó er barist með berum hnefum og sparkað og hefur sú íþrótt verið kynnt í barnatíma sjónvarpsins sem sérlega uppbyggileg íþrótt fyrir börn. Mér finnst að afstaða manna til ólympískra hnefaleika eigi að byggjast á því hvort þeir kynna sér staðreyndir um íþróttir í upphafi 21. aldarinnar fremur en því að álykta út frá hvernig þetta var í kringum 1950. Vel kann að vera að rétt sé að banna framangreindar bardagaíþróttir og aðrar íþróttagreinar, sem hafa meiri meiðsli í för með sér, svo sem knattspyrnu, ísknattleik og handbolta. En þá verður að gera það á grundvelli viðurkenndra rannsókna og á jafnréttisgrundvelli. Ég fæ ekki betur séð en að bann við ólympískum hnefaleikum einum og sér feli í sér misrétti milli íþróttagreina. Og vegna þess að ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var með þorra atkvæða, virðist kveikjan að skrifum þeirra Leifs og Marteins, má minna þá á, að tillaga íþróttanefndar landsfundarins um að leyfa ólympíska hnefaleika var rökstudd með gömlu kjörorði Sjálfstæðisflokksins: Gjör rétt! Þol ei órétt!

Höfundur er fréttamaður. Ómar Þ. Ragnarsson