LÍÐAN Vaclavs Havels, forseta Tékklands, var betri í gær að sögn lækna eftir að honum voru gefin sýklalyf vegna lungnakvefs en Havel hafði verið lagður inn á sjúkrahús í fyrrakvöld vegna sýkingar í brjóstholi.
Líðan Havels betri

Prag. Reuters.

LÍÐAN Vaclavs Havels, forseta Tékklands, var betri í gær að sögn lækna eftir að honum voru gefin sýklalyf vegna lungnakvefs en Havel hafði verið lagður inn á sjúkrahús í fyrrakvöld vegna sýkingar í brjóstholi.

Fréttir af frekari veikindum forsetans, sem er 62 ára og hefur átt við heilsuvanda að stríða undanfarin ár, ollu óróa á fjármálamörkuðum í Prag og féll gengi tékkneska gjaldmiðilsins nokkuð.

"Svo virðist sem líðan forsetans sé betri í dag," sagði Ilja Kotik, læknir Havels, við fréttamenn í gær. Hann kvaðst þó gera ráð fyrir að forsetinn yrði áfram á sjúkrahúsi í nokkra daga til að tryggja að hann fengi ekki lungnabólgu. Í fyrrakvöld höfðu læknar sagt að veikindi Havels stöfuðu sennilega af ofþreytu því forsetinn hefði unnið baki brotnu undanfarna daga og vikur.

Havel var fyrst kjörinn forseti Tékklands árið 1993 og á eftir fjögur ár af seinna kjörtímabili sínu á forsetastóli. Havel fékk lungnabólgu í fyrra eftir að hafa gengið í gegnum erfiða skurðaðgerð. Þjáðist hann seinna af mjög háum blóðþrýstingi. Vel hefur verið fylgst með heilsu Havels eftir að læknar fjarlægðu illkynja æxli úr lungum hans síðla árs 1996.