DAGAR lita og tóna heitir listahátíð sem haldin er í Akóges í Vestmannaeyjum nú um helgina. Boðið verður upp á djasstónleika laugardags- og sunnudagskvöld og líkt og fyrri ár hefur myndlistarmanni verið falið að móta umgjörð hátíðarinnar. Það er Grímur Marinó Steindórsson sem sýnir verk úr blandaðri tækni í Akóges.
Menningardagar í Eyjum

DAGAR lita og tóna heitir listahátíð sem haldin er í Akóges í Vestmannaeyjum nú um helgina. Boðið verður upp á djasstónleika laugardags- og sunnudagskvöld og líkt og fyrri ár hefur myndlistarmanni verið falið að móta umgjörð hátíðarinnar.

Það er Grímur Marinó Steindórsson sem sýnir verk úr blandaðri tækni í Akóges. Einn skúlptúra hans, Harpa, er tákn hátíðarinnar og verður komið fyrir við ytri höfnina að hátíð lokinni. Á sýningu Gríms verða skúlptúrar, veggmyndir úr málmi og klippi-, vatnslita- og olíumyndir.

Hermann Einarsson, einn forsvarsmanna hátíðarinnar, segir helstu djasstónlistarmenn landsins spila í Eyjum um helgina. En hátíðin er nú haldin í áttunda sinn. Meðal þeirra sem þar koma fram eru þeir Árni Scheving, Karl Möller, Alfreð Alfreðsson, Árni Elvar og dixiesveit lúðrasveitar Vestmannaeyja. Að sögn Hermanns enda tónleikarnir bæði kvöldin á djammsessjón.

Hermann segir mikið um að vera í Eyjum um helgina, en hápunktur hátíðarinnar verði þó í raun ekki fyrr en sunnudaginn 30. maí, þegar Niels-Henning Ørsted Pedersen spilar í Eyjum á tónleikum tileinkuðum minningu Eyjólfs Pálssonar, eins forgöngumanna hátíðarinnar. Sýning Gríms stendur fram yfir tónleika Niels Henning og er þetta önnur sýning hans á árinu.

HARPA, tákn listahátíðarinnar, sem komið verður fyrir við ytri höfnina.

GRÍMUR Marinó Steindórsson við eitt verka sinna.