HINGAÐ til lands eru komnir í tengslum við Lágmenningarhátið Reykjavíkur hljómsveitin Les Rhytmes Digitales og plötusnúðurinn Wiseguys, sem eru á samning hjá breska útgáfufyrirtækinu Wall of Sound.
Lágmenningarhátið

í Reykjavík

Skemmtanagildið

í fyrirrúmi

HINGAÐ til lands eru komnir í tengslum við Lágmenningarhátið Reykjavíkur hljómsveitin Les Rhytmes Digitales og plötusnúðurinn Wiseguys, sem eru á samning hjá breska útgáfufyrirtækinu Wall of Sound.

Þeir Wisguyes og Jacques Lu Cont, höfuðpaur Les Rythmes Digitales, voru fremur lúnir eftir ferðalagið en öngvu að síður borubrattir þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti þá skömmu eftir komuna. Það leyndi sér ekki að þeir voru ánægðir með að vera komnir og sögðust ætla að skemmta sér vel í þá fjóra daga sem þeir dvelja hér.

Að sögn Jacques er tónlistin hans blanda af popp- og danstónlist með "underground-ívafi". Hann segist vera undir miklum áhrifum frá tónlist 8. áratugarins og það megi heyra á hans eigin tónlistarsköpun.

Les Rhytmes Digitales og Wiseguys spila gjarnan á sömu uppákomunum en þá til skiptis enda spilar annar plötur en hinn "live". Þeir segja slíka blöndu skapa mikla stemmningu en áhersla þeirra er á að skemmta sér og áheyrendum sínum sem allra best. "Við erum mjög góðir en skemmtum okkur um leið, sumir skilja ekki að það skuli vera hægt."

Væntanlegur er á markaðinn nýr geisladiskur frá Les Rhytmes Digitales. Jacques fékk eitt átrúnargoða sinna, Nik Kershaw, til að syngja lag á plötunni og aðspurður segist hann vera mjög ánægður með heildarútkomuna. Hann segist ekki vera búinn að móta sér endanlegan stíl og vill heldur vera í sífelldri þróun sem tónlistarmaður.

Þeim félögum var tíðrætt um Ísland og sögðu að það væri staðurinn sem tónlistarmenn brynnu í skinninu eftir að komast til. Fyrir Jacques var því langþráður draumur að rætast en Wiseguys hefur hins vegar komið hingað oft áður.

Les Rhytmes Digitales og Wiseguys spila á Kaffi Thomsen í kvöld. Þeir munu væntanlega skemmta sér þrusuvel ef marka má lofsöng þeirra um íslenska tónlistargesti.

Morgunblaðið/RAX JACQUES og Wiseguyes stuttu eftir komuna til landsins.