Heldur er þessi niðurfærsla hjákátleg, segir Hreggviður Jónsson, og lítt utanríkisþjónustunni til sóma.
Um Svavar fyrrverandi sendiherra Stjórnmál Heldur er þessi niðurfærsla hjákátleg, segir Hreggviður Jónsson , og lítt utanríkisþjónustunni til sóma. OFT hefur skipan í embætti vakið athygli, eins og þegar Svavar Gestsson var skipaður sendiherra í NATO-ríkinu Kanada, en að sú ákvörðun snerist upp í skrípaleik óraði engan fyrir. Þótt nokkuð sé liðið síðan opinbert varð um niðurfærslu Svavars úr sendiherrastöðu í stöðu aðalræðismanns er nauðsynlegt að fjalla nokkuð um málið. Og þótt nú sé búið að kjósa til Alþingis er ekki von til þess, að þar á bæ hafi menn kjark til að ræða þessi mál.

Í Dagblaðinu 17. apríl 1999 svarar Sverrir Haukur Gunnlaugsson spurningum blaðsins um þetta einstæða mál, fyrir hönd utanríkisráðherra. Heldur eru svörin loðin og vandræðaleg. Ekki er von á öðru, enda hefur aldrei fyrr borið við í sögu utanríkisþjónustu Íslands, að sendiherra sé færður niður og gerður að ræðismanni. Heldur er þessi niðurfærsla hjákátleg og lítt utanríkisþjónustunni til sóma. Það er einnig alveg nýtt í sögu utanríkisþjónustu Íslands, að ræðismaður sé á fullum sendiherralaunum, áður eru aðeins dæmi um greiðslu á takmörkuðum kostnaði fyrir ræðismann. Þar að auki er það venja, að ræðismenn hafi fasta búsetu í viðkomandi landi, oftast eru þeir ríkisborgarar þess lands, þar sem þeir eru skipaðir ræðismenn.

Í svari utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, er gert ráð fyrir, að skipan Svavars sem aðalræðismanns sé mjög eðlileg. Sannleikurinn er alveg þveröfugur, það er hlægilegt klúður og meistaralegt kunnáttuleysi, að færa sendiherrann niður á stig ræðismanns. Þar að auki er vafamál um afstöðu Kanadamanna, sem öllu frekar munu líta á þetta mál sem dæmi um gamanleik úr afdölum. Og ekki hefði Myllu-Kobbi skemmt mönnum meira með sérkennilegum tiltækjum sínum. Þessu má líkja við það, þegar Myllu-Kobbi setti á sig farg til að hann gæti skriðið yfir botn Grafarár í Deildardal í stað þess að vaða hann. Já, klárir erum við Íslendingar.

Svör forsætisráðherra Davíðs Oddssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1999, þegar hann var spurður um skipan Svavars Gestssonar í embætti sendiherra, vöktu athygli. Það eina sem hann sagði var að hann tæki ábyrgð á barninu og það væri erfitt. Efnisleg svör við spurningum eins og: "Er það í lagi að sendiherra sé á móti aðild Íslands að NATO? Er í lagi að sendiherrann sé á móti varnarsamstarfi við Bandaríkin?" bárust ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því snúið til vinstri í utanríkismálum. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur tekið upp hættulega stefnu, þar sem samtryggingin ræður ferðinni, en ekki málefnið.Höfundur er fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Hreggviður Jónsson