Leikstjóri: Nick Hamm. Aðalhlutverk: Polly Walker, Vincent Perez, Francis McDormand, Franco Nero, Maria Parades. Miramax 1998. UNG írsk kennslukona kemur til Spánar rétt fyrir borgarastyrjöldina að kenna þremur dætrum herragarðseiganda en verður ástfangin af syni hans, sem stendur með vinstrisinnum í baráttunni gegn fasistanum Franco.
Ástin á herragarðinum KVIKMYNDIR Vorvindar ­ Kvikmyndahátíð Háskólabíós og Regnbogans ENGLAR "TALK OF ANGELS"

Regnboginn Leikstjóri: Nick Hamm. Aðalhlutverk: Polly Walker, Vincent Perez, Francis McDormand, Franco Nero, Maria Parades. Miramax 1998. UNG írsk kennslukona kemur til Spánar rétt fyrir borgarastyrjöldina að kenna þremur dætrum herragarðseiganda en verður ástfangin af syni hans, sem stendur með vinstrisinnum í baráttunni gegn fasistanum Franco. Mjög er róstusamt í landinu og kennslukonan verður vitni að mótmælum á götum úti auk þess sem hún kynnist öðrum kennslukonum í Madrid, piparkerlingum miklum, lendir upp á kant við húsmóður sína og á í mjög viðkvæmu ástarsambandi við soninn á heimilinu. Myndin er byggð á ástarsögu eftir Katie O'Brien og virkar ekki merkileg komin á hvíta tjaldið. Einfeldningslegar pólitískar samræður, gersamlega óspennandi ástarsamband, daufur leikur og markmiðslaus leikstjórn gerir að verkum að Englar eða "Talk of Angels" verður aldrei burðarmikil mynd. Það vantar einhvern veginn fókusinn í söguna, sem rásar á milli lýsinga á óróanum í landinu og piparkellingasamræðna og ástarsambandsins án þess að neitt af því tengist í heildstæða mynd eða skapi spennu. Leikararnir eru stífir og gengur ekki vel að fara með óþjálan textann í þessu dauflega melódrama. Jafnvel tekst að gera Franco Nero í hlutverki herragarðseigandans næsta sviplausa rolu. Polly Walker, sem fer með aðalhlutverkið, er snoppufríð en varla mikil leikkona og Francis McDormand getur lítið gert með gersamlega óljóst hlutverk lesbíu, sem á eftir að koma út úr skápnum. Sá eini sem hefur eitthvað vitrænt fram að færa er Vincent Perez sem sonurinn, en hann minnir mjög veikt á Marlon Brando áður en átsýkin tók völdin. Englar virkar eins og klassísk ástarsaga af herragarðinum í umhverfi sem hefði verið hægt að gera spennandi en verður það aldrei. Arnaldur Indriðason