FJÓRÐUNGSSJÚKRAHÚSIÐ á Akureyri var rekið með rúmlega 22,5 milljóna króna halla á síðasta ári en árið á undan var tapið rúmar 56,5 milljónir króna. Á ársfundi FSA í vikunni kom fram í máli Halldórs Jónssonar framkvæmdastjóra, að samkvæmt rekstraráætlun þessa árs sé gert ráð fyrir 80-90 milljóna króna halla miðað við óbreyttar fjárveitingar.
Rúmlega 22 milljóna króna halli á rekstri FSA í fyrra Mikil aukning í starfsemi sjúkrahússins

FJÓRÐUNGSSJÚKRAHÚSIÐ á Akureyri var rekið með rúmlega 22,5 milljóna króna halla á síðasta ári en árið á undan var tapið rúmar 56,5 milljónir króna. Á ársfundi FSA í vikunni kom fram í máli Halldórs Jónssonar framkvæmdastjóra, að samkvæmt rekstraráætlun þessa árs sé gert ráð fyrir 80-90 milljóna króna halla miðað við óbreyttar fjárveitingar.

Halldór sagði að mjög mikil aukning hafi orðið í starfsemi sjúkrahússins á undanförnum árum. Nokkrar heimildir höfðu verið veittar fyrir nýjum stöðum og fjárveitingar einnig verið hækkaðar nokkuð. Aukningin hafi hins vegar verið meiri og hraðari en sem nam hækkun fjárveitinga og sjúkrahúsið því rekið með halla og þó sérstaklega á árinu 1997.

"Þessi þróun hafði leitt til mjög aukins álags á starfsfólk og ljóst að jafnvægi yrði að nást í starfsemi og fjárveitingum. Starfsemin á liðnu ári var mikil en þó nokkru minni en árið áður. Á árinu fjölgaði innlögðum sjúklingum aðeins en legudögum fækkaði um tæp 4%. Aukning var í starfsemi dagdeilda og fæðingum fjölgaði. Skurðaðgerðum fækkaði nokkuð eða um 5,3% en í heild komst meira jafnvægi á starfsemi sjúkrahússins."

Ætlað mikilvægt hlutverk

Halldór sagði að nokkur spenna hafði orðið samfara þeim kjarasamningum sem gerðir höfðu verið árið áður og útfærðir voru í aðlögunarnefndum á sl. ári. Hann sagði að almennt hafi orðið mikil hækkun á launakostnaði samhliða þessum samningum en sá kostnaðarauki fékkst ekki að fullu bættur og eru þau mál til skoðunar í ráðuneytum.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er eitt af þremur stóru sjúkrahúsum landsins og sagði Halldór að því væri ætlað mikilvægt hlutverk í heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi og á sumum sviðum á landsvísu. Því væri nauðsynlegt að fjárveitingar til sjúkrahússins væru í samræmi við þá starfsemi og þá þjónustu sem því er ætlað að veita.

Fjárveitingar verði auknar

"Það þarf að styrkja möguleika FSA enn frekar til að veita sambærilega þjónustu og veitt er á sjúkrahúsum í Reykjavík á mörgum sviðum. Til þess þarf að bæta aðstöðu sjúkrahússins. Mönnun þarf að styrkja en of fáir eru í hverri sérgrein," sagði Halldór og bætti við að jafnframt þyrfti að bæta tækjabúnað sjúkrahússins verulega.

Halldór sagði að helstu ástæður fyrirsjáanlegs rekstrarhalla þessa árs væru vegna aukins launakostnaðar sem samið var um í síðustu kjarasamningum og í aðlögunarnefndum og ekki hefur fengist bættur og eins vegna kostnaðar sem tengist árinu 2000. Hann sagði nauðsynlegt að fjárveitingar vegna þessa þáttar yrðu auknar en niðurstaða liggi þó ekki fyrir fyrr en á haustdögum.