UM miðjan júní eru liðin fimm ár frá því skipulegt forvarnarstarf hófst hjá Vátryggingafélagi Íslands en fyrsta verkefnið var að setja á markað eina öruggustu barnabílstóla sem völ er á í heiminum. Haustið 1994, hófust síðan umferðarfundir VÍS, "Tökum slysin úr umferð" þar sem fjallað er um afleiðingar umferðarslysa og hafa þeir fundir verið haldnir reglulega síðan. Á þessum fimm árum hafa 10.
"Hörðustu töffararnir með beltin spennt"

Frá Ragnheiði Davíðsdóttur:

UM miðjan júní eru liðin fimm ár frá því skipulegt forvarnarstarf hófst hjá Vátryggingafélagi Íslands en fyrsta verkefnið var að setja á markað eina öruggustu barnabílstóla sem völ er á í heiminum. Haustið 1994, hófust síðan umferðarfundir VÍS, "Tökum slysin úr umferð" þar sem fjallað er um afleiðingar umferðarslysa og hafa þeir fundir verið haldnir reglulega síðan. Á þessum fimm árum hafa 10.000 ungmenni sótt umferðarfundi VÍS á yfir 300 fundum. Á fundunum eru sýnd viðtöl við fórnarlömb umferðarslysanna, m.a. ungt fólk sem valdið hefur slysi, ökumenn og farþega sem slasast hafa í umferðinni, foreldra þeirra, skólafélaga og aðra sem um sárt eiga að binda. Þá er fjallað um afleiðingar ölvunaraksturs, hraðaksturs, bílbeltanotkun, viðhorf ungra ökumanna til umferðarinnar og fleira. VÍS hefur átt mjög gott samstarf við Félag framhaldsskólanema en nemendafélög skólanna hafa boðað til umferðarfunda á skólaárinu, þar sem fulltrúar VÍS hafa mætt, ásamt ýmsum gestum en meðal þeirra eru fatlaðir einstaklingar úr SEM-samtökunum, lögreglumenn og sjúkraflutningamenn. Fundirnir eru afar áhrifaríkir og skilja eftir sig sterkan boðskap í baráttunni við umferðarslysin.

Tvisvar í mánuði eru síðan haldnir umferðarfundir í húsakynnum VÍS, Ármúla 3, Reykjavík og eru þeir opnir öllum ungum ökumönnum, ökunemum og aðstandendum þeirra. Fundirnir eru á dagskrá annað hvert mánudagskvöld og hefjast stundvíslega klukkan 19.30. Auk dagskrárinnar fá þátttakendur að gjöf blaðið Stanz, penna, T-bol og endurskinsmerkispjald á skólatöskuna. VÍS hefur einnig frá upphafi umbunað sérstaklega þátttakendum umferðarfundanna, sem tryggja eigin bíl hjá félaginu, með því að veita þeim verulegan afslátt af ábyrgðartryggingu. Þau hlunnindi fá þeir einir sem mæta á fundina.

Þótt aðaláherslan í forvarnastarfi VÍS hafi beinst að ungum ökumönnum, hefur félagið þó ekki gleymt öðrum þjóðfélagshópum. Samfara útleigu á barnabílstólunum hefur VÍS boðið upp á sérhæfð fræðsluerindi um slysavarnir barna og ungmenna hjá félagasamtökum, á leikskólum og fleiri stöðum, og sérstaka forvarnadagskrá fyrir eldri borgara þar sem fjallað er um slysavarnir, innan og utan heimilis, vatnstjónsvarnir, þjófavarnir og brunavarnir. Nýjasta verkefnið í forvarnamálum VÍS eru forvarnafundir/námskeið með bílstjórum fólks- og vöruflutningabíla þar sem fjallað er um öryggisatriði sem tengjast þeirri atvinnugrein. Þar er meðal annars fjallað um ökurita, hraðatakmarkara, ökuhraða, hjólbarða, bílbelti, tengibúnað og frágang farms, flutning hættulegra efna, farsímanotkun og fleira. Foreldrar og forráðamenn ungmenna á ökunámsaldri eru hvattir til að senda börn sín á umferðarfundi VÍS. Til marks um gildi þeirra er eftirfarandi saga: Ung stúlka snýr sér að undirritaðri í verslun og segir henni að hún hafi mætt á umferðarfund VÍS í menntaskólanum þar sem hún stundar nám. "Jæja, og hvernig fannst þér?" spurði forvarnafulltrúinn. "Hann hafði mikil áhrif á mig ­ en það er ekki aðalmálið, því við vinkonurnar notum alltaf bílbelti og ökum aldrei of hratt. En hörðustu töffararnir í skólanum, sem aldrei notuðu bílbelti, hafa ekki tekið þau niður síðan fundurinn var haldinn." Þessi orð færðu mér heim sanninn um að VÍS væri á réttri leið í baráttunni við umferðarslysin.

RAGNHEIÐUR DAVÍÐSDÓTTIR,

forvarna- og öryggismálafulltrúi Vátryggingafélags Íslands.