SÖNGKVARTETTINN Rúdolf heldur tónleika í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, þriðjudaginn 25. maí kl. 20:30. Á efnisskrá eru íslensk og erlend lög, bæði klassísk og af léttara taginu. Á fyrri hluta tónleikanna verður frumflutt lagið Frændi þegar fiðlan þegir eftir Atla Heimi Sveinsson við ljóð Halldórs Kiljan Laxness í útsetningu Skarphéðins Hjartarsonar.
Söngkvartettinn Rúdolf syngur í Salnum

SÖNGKVARTETTINN Rúdolf heldur tónleika í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, þriðjudaginn 25. maí kl. 20:30.

Á efnisskrá eru íslensk og erlend lög, bæði klassísk og af léttara taginu. Á fyrri hluta tónleikanna verður frumflutt lagið Frændi þegar fiðlan þegir eftir Atla Heimi Sveinsson við ljóð Halldórs Kiljan Laxness í útsetningu Skarphéðins Hjartarsonar. Einnig verða flutt þrjú lög eftir Benjamin Britten úr lagaflokknum "Five Flower Songs" og ástarvalsar eftir Johannes Brahms. Í völsunum munu feðginin Marteinn H. Friðriksson og Þóra Marteinsdóttir leika undir fjórhent á píanó. Seinni hluti tónleikanna verður að mestu helgaður léttari tónlist. Sungin verða lög eftir Sigfús Halldórsson, Jón Múla Árnason, Stuðmenn, ABBA o.fl.

Rúdolf, sem þekktastur er fyrir jólatónlist sína, var stofnaður árið 1992 og hefur víða komið fram, bæði á sjálfstæðum tónleikum og í útvarpi og sjónvarpi. Kvartettinn syngur oftast án undirleiks og eru útsetningar margar gerðar sérstaklega fyrir hópinn. Rúdolf hefur gefið út tvo geisladiska: Rúdolf ­ jólasöngvar (1995) og Jólavaka (1997).

Kvartettinn Rúdolf skipa: Sigrún Þorgeirsdóttir, sópran, Soffía Stefánsdóttir, alt, Skarphéðinn Hjartarson, tenór, og Þór Ásgeirsson, bassi.Morgunblaðið/Ásdís SÖNGKVARTETTINN Rúdolf æfir dagskrá tónleikanna sem verða á þriðjudag.