TALSVERÐ umræða varð um skipulagsmál í Laugardalnum í Reykjavík á fundi borgarstjórnar á fimmtudagskvöld m.a. vegna hugmynda um að Landssími Íslands hf. fái úthlutað lóð sem tónlistarhúsi var ætluð og vegna umsóknar um byggingu kvikmyndahúss.
Helgi Hjörvar um álit minnihluta á uppbyggingu í Laugardal Sýnir sundrungu og skort á forystu

TALSVERÐ umræða varð um skipulagsmál í Laugardalnum í Reykjavík á fundi borgarstjórnar á fimmtudagskvöld m.a. vegna hugmynda um að Landssími Íslands hf. fái úthlutað lóð sem tónlistarhúsi var ætluð og vegna umsóknar um byggingu kvikmyndahúss. Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans segja borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sundraða í málinu en þeir sjálfir telja að meirihlutinn hafi þegar ákveðið að heimila umræddar byggingar.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram bókun vegna málsins og telur hann að endurskoða eigi öll áform um byggingaframkvæmdir austast í Laugardal á svæðinu milli Engjavegar og Suðurlandsbrautar. Hann segir að íþróttastarf og útivist eigi að hafa forgang í skipulagi og nýtingu dalsins og leggja þurfi áherslu á að sátt náist um skipulag svæðisins jafnt innan borgarstjórnar sem utan.

Helgi Hjörvar, oddviti Reykjavíkurlistans, sem einkum tók þátt í umræðunni ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, sagði sundrungu og skort á forystu áberandi í afstöðu sjálfstæðismanna í þessu máli. Inga Jóna Þórðardóttir og fleiri hefðu í borgarráði verið hlynnt því að höfuðstöðvar Landssímans rísi við Suðurlandsbraut, gegnt húsi Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Vífill Ingvarsson hefði lagt til að þar risi víkingaaldargarður, Kjartan Magnússon og Guðlaugur Þór Þórðarson vildu að íþróttahreyfingunni yrði falin öll uppbygging og Ólafur F. Magnússon vildi endurskoða öll áform. Þannig væru uppi þrjár eða fjórar skoðanir hjá minnihlutanum. Helgi minnti á að búið væri að gefa Landssímanum vilyrði fyrir lóðinni og ekki væri eins og byggja ætti í miðjum dalnum. Í nýbyggingu Landssímans væri líka gert ráð fyrir tæknisafni á jarðhæð sem gæfi gestum Fjölskyldu- og húsdýragarðsins færi á enn fjölbreyttari afþreyingu. Aðspurður sagði Helgi í samtali við Morgunblaðið að ekki hefði verið tekin nein afstaða hjá meirihlutanum til umsóknar um byggingu kvikmyndahúss, málið væri til skoðunar.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu áherslu á að ljúka uppbyggingu sem nú stæði yfir í Laugardalnum og nefndu framkvæmdir við sundlaugarnar, hugmyndir um heilsuræktarmiðstöð og skautahöll og frágang á bílastæðum og aðkomu að Laugardalsvelli.

Áskorun til borgarstjórnar vísað frá hjá ÍTR

Málið var einnig rætt á fundi Íþrótta- og tómstundaráðs í gær og þar lagði Kjartan Magnússon, annar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, það til að skora á borgarstjórn að beita sér fyrir því að það land sem enn er til ráðstöfunar í Laugardalnum verði nýtt til starfsemi í þágu íþróttaiðkunar eða annarrar starfsemi tengdri útiveru og tómstundaiðkun fjölskyldna. Tillögunni var vísað frá. "Þessi frávísun og afstaðan sem fram kom í borgarstjórn staðfestir í mínum augum þau áform meirihlutans að láta verða af byggingu kvikmyndahúss og leiktækjasalar í Laugardalnum," sagði Kjartan Magnússon í samtali við Morgunblaðið í gær.