FIMMTÍU og tveggja ára maður var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í þriggja og hálfs árs fangelsi og greiðslu einnar milljónar króna í miskabætur, auk vaxta og alls sakarkostnaðar, fyrir grófa kynferðislega misnotkun á hendur dóttur sinni á árunum 1992 til 1996, þegar hún var níu til þrettán ára gömul.
Maður um fimmtugt dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsis fyrir misnotkun á dóttur sinni

Sekur um ítrekuð og

gróf kynferðisbrot

FIMMTÍU og tveggja ára maður var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í þriggja og hálfs árs fangelsi og greiðslu einnar milljónar króna í miskabætur, auk vaxta og alls sakarkostnaðar, fyrir grófa kynferðislega misnotkun á hendur dóttur sinni á árunum 1992 til 1996, þegar hún var níu til þrettán ára gömul.

Málavextir eru þeir helstir að stúlkan kom á lögreglustöð í kaupstað hérlendis sumarið 1997 og kvaðst vilja kæra föður sinn fyrir kynferðislega áreitni sem hún hefði sætt frá 7­8 ára aldri. "Áreitnin hefði byrjað með þeim hætti að ákærði hefði farið með hana inn í svefnherbergi og sagst ætla að kenna henni það sem allir pabbar kenndu dætrum sínum. Ákærði hefði því næst beðið hana að afklæðast og leggjast upp í rúm. Stúlkan kvaðst halda að hann hefði síðan tekið niður um sig og nauðgað henni. Hún kvað slíkt hið sama hafa gerst nokkrum sinnum eftir umrætt atvik. Hún hefði skýrt móður sinni frá þessu síðastliðið gamlárskvöld [áramótin 1996­97] og hefði ákærði ekki áreitt hana eftir það," segir í dóminum.

Stöðug í frásögn

Barnaverndarnefnd viðkomandi sveitarfélags lagði fram skriflega kæru á hendur ákærða 1. júlí í fyrra. Í kærunni kemur m.a. fram að stúlkan hafi verið stöðug í frásögn sinni um kynferðislega misnotkun af hálfu ákærða í samtali við sálfræðing og félagsráðgjafa, og ekki hvikað frá upphaflegri kæru. Hún lýsti sig reiðubúna að gangast undir læknisrannsókn til að kanna hvort hún bæri þess merki að hafa sætt kynferðislegri misnotkun og var staðfest í vottorði kvensjúkdómalæknis að meyjarhaft hennar væri rofið þannig að ekki væri um að villast að stúlkan hefði haft samfarir.

Með kærunni fylgdu einnig skýrslur félagsráðgjafa, talmeinafræðings, sálfræðings og barnalæknis, sem höfðu haft afskipti af stúlkunni á síðustu mánuðum fyrir kæru vegna námserfiðleika, atferlis- og aðlögunarerfiðleika og gruns um ofvirkni.

Viðurkenndi mörg tilvik

Daginn eftir að kæra var lögð fram yfirheyrði lögreglan manninn og viðurkenndi hann án undanbragða að hafa misnotað dóttur sína kynferðislega og sagði tilvikin hafa verið mörg. Hann kvaðst halda að misnotkunin hefði byrjað þegar stúlkan var níu ára gömul og kvaðst telja, aðspurður um tíðni atvika, að þetta kunni að hafa gerst einu sinni í mánuði um það bil og hefði staðið í allt að fjögur ár. Ákærði kvaðst hafa beðið dóttur sína að halda þessu leyndu og hafa hrætt hana með því að segja að ef hún greindi frá þessu myndi móðir hennar reka hann að heiman.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu kom fram hjá stúlkunni að ákærði hefði látið af misnotkuninni þegar hún var þrettán ára og hefði hótað að skýra frá. Ári síðar hefði hún greint frá athæfi ákærða.

Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi 17. maí síðastliðinn viðurkenndi ákærði að hafa misnotað dóttur sína á umræddu tímabili og að tilvik kynferðislegrar misnotkunar hefðu verið hátt á fimmta tug talsins. Stúlkan hefði fyrst minnst á misnotkunina við móður sína á gamlárskvöld 1996 og aftur í júlí 1997, þegar hún kærði hann til lögreglu. Þegar móðirin hefði spurt hvort fótur væri fyrir slíkum ásökunum hefði hann neitað öllu.

Í vitnisburði móðurinnar fyrir dómi kom fram að stúlkan ætti langt í land með að ná sér eftir misnotkunina en henni hefði þó vegnað betur eftir að ákærði hefði flutt af heimilinu síðastliðið haust og gengi nú betur í námi. Í vitnisburði sálfræðings fyrir dómi kom fram að meðferð eða stuðningur við stúlkuna hefði einkum falist í að styrkja hana andlega og endurreisa sjálfsmynd hennar og að reyna að koma henni í skilning um að það sem gerst hefði væri ekki henni að kenna. Jafnframt hefði verið leitast við að kenna henni að takast á við afleiðingar kynferðislegrar misnotkunar, en stúlkum á hennar reki væri hætt við að verða aftur fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar.

Langvarandi sálarangist

Dóminum þótti sannað að ákærði hefði gerst sekur um ítrekuð og gróf kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um alvarleg brot var að ræða, sem framin voru með jöfnu millibili um nær fjögurra ára skeið innan veggja heimilis og í skjóli þeirrar friðhelgi og þess trúnaðartrausts sem þar á að ríkja. Vafalaust er talið að "ákærði hefur með svívirðilegu framferði sínu valdið stúlkunni langvarandi sálarangist," segir í dóminum.

Engu er þó slegið föstu um varanlegar afleiðingar af framkomu ákærða á sálarlíf stúlkunnar en talið er þó ljóst að hún sé fallin til að valda stúlkunni alvarlegum og langvarandi sálrænum erfiðleikum.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt Guðmundi L. Jóhannessyni og Þorgeiri Inga Njálssyni héraðsdómurum.