Leikstjórinn David Lynch hefur oft vakið deilur með myndum sínum en skiptir um ham í nýjustu mynd sinni sem frumsýnd var í Cannes í gærkvöldi. Pétur Blöndal sótti blaðamannafund með honum og leikurum myndarinnar.
Kvikmyndahátíðin í Cannes

Lynch leitar

á nýjar slóðir Leikstjórinn David Lynch hefur oft vakið deilur með myndum sínum en skiptir um ham í nýjustu mynd sinni sem frumsýnd var í Cannes í gærkvöldi. Pétur Blöndal sótti blaðamannafund með honum og leikurum myndarinnar.

TITILL nýjasta afsprengis bandaríska leikstjórans Davids Lynch gefur óneitanlega til kynna breyttar áherslur. Hún nefnist "The Straight Story" og hefðu það einhvern tíma þótt tíðindi um manninn sem gerði m.a. sjónvarpsþáttaröðina "Twin Peaks" og kvikmyndina "Lost Highway" sem voru báðar úr tengslum við raunveruleikann. Ekki er nóg með að "The Straight Story" sé raunsærri en aðrar myndir Lynch heldur er hún líka byggð á sannri sögu. Hún fjallar um bræður sem hafa ekki talað saman í tíu ár. Annar þeirra dettur og slasar sig og þegar hann er að jafna sig fréttir hann að hinn bróðirinn hafi fengið hjartaáfall. Hann fær áhyggjur af bróður sínum, vill sættast og ákveður að leggja upp í mörg hundruð kílómetra ferð til að hitta hann. Þar sem hann hefur ekki efni á að kaupa sér miða, er ekki með nógu góða sjón til að keyra og er of stoltur til að þiggja far leggur gamli maður upp í ferðina á garðsláttuvélinni sinni og dregur á eftir sér vagn með birgðum fyrir ferðina. "Ég býst við að ég verði að taka undir að þessi mynd er ólík þeim myndum sem ég hef gert upp á síðkastið," segir Lynch sem að vanda er með hárið úfið að hætti aðalsögupersónunnar úr fyrstu mynd sinni "Erasurehead". Hann heldur áfram: "En maður verður alltaf að taka mið af aðstæðum hverju sinni og eins þurfti ég að taka mið af sögunni. Þetta var það sem myndin þurfti. Og við lögðum í hann. Það var einfaldlega eitthvað í handritinu sem sagði mér að þetta væri rétta leiðin." Lynch hefur tvisvar áður komið til Cannes með myndir sínar. Hann fékk gullpálmann fyrir myndina "Wild At Heart", sem framleidd var af Sigurjóni Sighvatssyni, og var rakkaður niður fyrir myndina "Twin Peaks: Fire Walk With Me." En hvernig er hann stemmdur fyrir hátíðina að þessu sinni? "Þetta er stórfenglegasta kvikmyndahátíð í heiminum og það er gaman að taka þátt í aðalkeppninni. Það eykur á spennuna," segir hann og bætir við: "Stundum ber maður eitthvað úr býtum og stundum ekki. Þannig er lífið. En hvernig sem keppnin fer þá nýt ég þess að vera hér." Ástæðuna fyrir því að Lynch valdi að gera mynd við þessa sögu segir hann vera næmið fyrir tilfinningum í handritinu sem Mary Sweeney og John Roach skrifuðu. "Það var fyrirgefningin sem snart mig dýpst," bætir hann við. En hvernig höfðu handritshöfundarnir upp á sögunni. "Ég las um ferðina í New York Times þegar hann lagði í hana árið 1994," segir Sweeney. "Fjölmiðlar fjölluðu mikið um ferðina. Ég þurfti að bíða í nokkur ár því aðrir urðu fyrri til að verða sér úti um réttinn að kvikmyndinni en þegar það verkefni rann út í sandinn og rétturinn losnaði þá var ég fljót til og við lukum við handritið á fjórum mánuðum." Lynch á varla orð til að lýsa leikhóp myndarinnar. "Eins og þú veist er Richard Farnsworth næstum því í hverju einasta atriði myndarinnar. Stundum er sagt að menn séu fæddir í hlutverk og ef það hefur nokkurn tíma átt við þá er það núna. Það er svo yndisleg manneskja sem skín í gegnum hvert orð og augnatillit og mikil gæfa að hafa hann í myndinni. Mig hafði alltaf langað til að vinna með Sissy Spacek. Hún er eins og kamelljón að því leyti að hún getur leikið hvaða hlutverk sem er. Og hvað Harry Dean Stanton varðar þá leikur hann aðeins í einu atriði, en það er gríðarlega mikilvægt og hann leysir það vel af hendi." "Það var ekki mjög erfitt að leika í þessari mynd," segir Farnsworth. "Ég náði góðum tengslum við persónuna án þess að þurfa að setja mig inn í annan hugarheim. Enda gæti þetta verið saga um mig," segir hann og hlær. "Raunar er það dálítið spaugilegt að ég var nýkominn úr aðgerð og ekki í góðu líkamlegu ásigkomulagi þegar mér var boðið hlutverkið. Ég gekk við staf og þegar umboðsmaðurinn minn hringdi og sagðist hafa lesið yndislegt handrit þá sagðist ég ekki vera viss um að ég væri til stórræðanna." Hún sagði: "Þú átt ekki eftir að trúa þessu en þessi sögupersóna gengur við tvo stafi." Og ég svaraði: "Ég ætti að geta ráðið við það." Farnsworth er með kúrekahatt og góðmennskan skín úr hverjum andlitsdrætti eins og í myndinni. Það býr líka seigla í honum því hann byrjaði ferilinn sem áhættuleikari. "Ég var áhættuleikari í 25 ár," segir hann. "Ástæðan fyrir því að ég gerðist leikari var sú að jörðin var orðin ansi hörð viðkomu og ég var orðinn þreyttur á að vinna við að brotlenda á henni. Ég bjóst nú reyndar aldrei við að komast að sem leikari og ætlaði bara að hætta í kvikmyndum en þegar tækifærið bauðst var ég ekki seinn til að grípa það."

Myndin "The Straight Story" er afar hæg og einn gagnrýnandi lýsti henni svo að hún væri ferðalag um Bandaríkin á 5 kílómetra hraða. "Ég þurfti að fá mér gamlan hjartagangráð til þess að geta þetta," segir Lynch og kímir. Gagnrýnendum hefur einnig orðið tíðrætt um að enginn deyr í myndinni og að þar sé engin undirliggjandi þjóðfélagsádeila, sem verði að teljast afar ólíkt myndum Lynch. Hann hefur aðeins eitt um það að segja: "Mary Sweeney þurfti að bregða sér frá þegar hún átti von á símtali frá kvikmyndaeftirlitinu. Ég svaraði því símanum og náungi að nafni Tony sagði við mig: "Myndin er leyfð til sýninga fyrir alla aldurshópa." Og ég svaraði: "Þú verður að endurtaka þetta því ég örugglega á aldrei eftir að heyra þetta aftur það sem eftir er ævi minnar."" "The Straight Story" verður að teljast óður til þrjóskunnar. "Aðalpersónan verður að sýna mikla seiglu og sigrast á ótal hindrunum til að sýna bróður sínum hversu honum er annt um hann," segir Lynch. Aðspurður um hvað varð um bræðurna segir hann: "Því verður svarað í The Straight Story II," og brosir. Enda kannski ekki hið dæmigerða efni í framhaldsmyndir. En þegar Lynch er annars vegar - hver veit? Morgunblaðið/Halldór Kolbeins LEIKSTJÓRINN David Lynch með úfið hár að vanda.

AÐSTANDENDUR kvikmyndarinnar "The Straight Story" (f.v.) John Roach annar handritshöfundurinn, Angelo Badalamenti er sá um tónlistina, Harry Dean Stanton leikari, Mary Sweeny handritshöfundur, David Lynch leikstjóri, Sissy Spacek leikkona og Richard Farnsworth leikari. LJÓSMYNDARAR eru fjölmargir á kvikmyndahátíðinni en skýla sér iðulega bakvið linsur myndavéla. Hér eru þeir þó í aðalhlutverki og hafa vakið áhuga konu fremur en stjörnurnar dáðu sem myndaðar eru sem mest.