KVIKMYND tyrkneska leikstjórans Canan Gerede Skilnaðurinn sem m.a. er framleidd af Íslensku kvikmyndasamsteypunni var frumsýnd á hátíðinni í Cannes og fékk miðlungs dóma í kvikmyndatímaritinu Variety.
Molar frá Cannes Skilnaðurinn opnar

dyr fyrir Gerede KVIKMYND tyrkneska leikstjórans Canan Gerede Skilnaðurinn sem m.a. er framleidd af Íslensku kvikmyndasamsteypunni var frumsýnd á hátíðinni í Cannes og fékk miðlungs dóma í kvikmyndatímaritinu Variety. Í bakgrunni myndarinnar er sagan af baráttu Sophiu Hansen fyrir því að endurheimta dætur sínar tvær frá föður sínum í Tyrklandi en þó er mörgu breytt, til að mynda nöfnum og einstökum atburðum, og skáldað í eyðurnar. Deborah Young, gagnrýnandi Variety, segir söguna áhrifaríka og að hún eigi eftir að opna fleiri dyr fyrir leikstjóranum Gerede í Evrópu. Þó finnur hún að stirðbusalegri ensku, gagnrýnir leikinn nokkuð og segir að það vanti upp á að sýna sálræna hlið persónanna. Ennfremur segir í gagnrýninni að sagan veki ýmsar spurningar, t.d. hvort feður hafi rétt á að ala afkvæmi sín upp í eigin strangtrúuðu skoðunum. Í lokin segir gagnrýnandinn að myndin komi út sem and-tyrknesk og það geti varla verið sem leikstjórinn hafi ætlað sér, hvað sem gagnrýnandinn hefur nú fyrir sér í því. 1.400 kvikmyndir á ári "Næstum allar myndirnar í keppninni fjalla um samtímann," segir Gilles Jacob í viðtali við Moving Pictures. Hann er yfir hátíðinni og sér um að velja myndir í þær opinberu dagskrár sem boðið er upp á. "Leikstjórar um allan heim eru að leita að nýjum leiðum til að segja sögu á filmu til að mæta kröfum nýs árþúsunds." Hann ætti að vita það því hann ásamt aðstoðarfólki sínu horfði á ríflega 500 kvikmyndir, 500 stuttmyndir og 400 myndir eftir leikstjóra sem eru að gera sína fyrstu atrennu að kvikmyndagerð. Jacob vill gjarnan viðhalda jafnvægi á milli mynda sem eru listrænar og þeirra sem hafa skemmtanagildi. "Stundum fáum við hvort tveggja í einni og sömu myndinni eins og gildir um mynd Almodovars Allt um móður mína og mynd Atoms Egoyans Felicia's Journey . Það eru alltaf meðmæli." Báðar myndirnar þykja einmitt líklegar til að hreppa gullpálmann á lokahátíðinni á sunnudag. Sá orðrómur fer á kreik á hverju ári að það Jacob ætli sér að hætta enda hefur hann verið yfir hátíðin í 21 ár. En hann hafnar því alfarið. "Það kemur ekki til mála. Mér finnst þetta frábært starf og ef enginn hefur neitt við það að athuga þá er ég ekkert á þeim buxunum að hætta." LEIKSTJÓRINN Atom Egoyan með dóttur sinni, eiginkonu og leikaranum Mel Gibson við frumsýningu myndarinnar Felicia's Journey á Cannes.