GUNNAR Birgisson, stjórnarformaður Samvinnulífeyrissjóðsins" sagði m.a. á aðalfundi sjóðsins sem haldinn var 20. maí síðastliðinn að sjóðurinn hefði á seinasta ári sett á fót aldursháða sameignardeild, ásamt séreignardeild, og störfuðu þær við hlið hinnar hefðbundnu sameignardeildar. "Eftir þessar aðgerðir er Samvinnulífeyrissjóðurinn í fararbroddi lífeyrissjóðanna í dag," sagði Gunnar.
ÐÁrsfundur Samvinnulífeyrissjóðsins

Ungu fólki tryggð full réttindi fyrir iðgjöld

GUNNAR Birgisson, stjórnarformaður Samvinnulífeyrissjóðsins" sagði m.a. á aðalfundi sjóðsins sem haldinn var 20. maí síðastliðinn að sjóðurinn hefði á seinasta ári sett á fót aldursháða sameignardeild, ásamt séreignardeild, og störfuðu þær við hlið hinnar hefðbundnu sameignardeildar. "Eftir þessar aðgerðir er Samvinnulífeyrissjóðurinn í fararbroddi lífeyrissjóðanna í dag," sagði Gunnar.

"Við erum fyrstir, fyrir utan Lífeyrissjóð verkfræðinga, til að tryggja ungu fólki full réttindi fyrir iðgjöld greidd til sjóðsins. Til samanburðar má til að mynda benda á stærstu lífeyrissjóði landsins, sem hafa alveg ótrúleg réttindi af unga fólkinu og einnig af láglaunafólki, með því að bjóða ekki upp á okkar kost, það er aldursháða sameignardeild," sagði Gunnar. Í aldursháðri sameignardeild eru réttindi sjóðfélaga miðuð við á hvaða tíma sjóðfélaginn greiddi iðgjald inn í sjóðinn, og miðast réttindin við áunna vexti á iðgjaldið til þess tíma sem útgreiðslur hefjast. Til samanburðar eru réttindi föst í stigakerfi án tillits til hvenær iðgjald var greitt inn í sjóðinn.

Gunnar sagði einnig að við tryggingafræðilega úttekt á aldursháðu sameignardeildinni væri stuðst við 3,5% framtíðarvexti. Raunin hefði orðið 7,47% ávöxtun í fyrra, og hefði stjórn sjóðsins því ákveðið að bæta réttindi aldursháðu deildarinnar til samræmis.

Í máli Gunnars á fundinum kom fram að á árinu 1998 greiddu 4.633 launþegar iðgjöld til sjóðsins, og námu heildariðgjöld samtals 545 milljónum króna sem er 13% meira en árið áður. Ávöxtun séreignadeildar Samvinnulífeyrissjóðsins nam 10,01% og fjárfestingartekjur námu 859 milljónum króna. Rekstrargjöld sjóðsins voru 24,5 milljónir króna sem er 0,21% af hreinni eign sjóðsins. Lífeyrisgreiðslur voru 547 milljónir króna á árinu 1998 og fjöldi lífeyrisþega var 1.997. Það skýrir rekstrargjöldin að hluta, að Samvinnulífeyrissjóðurinn greiðir hlutfallslega meiri lífeyri en aðrir sjóðir, kom fram í máli Gunnars.

Í ársreikningi Samvinnulífeyrissjóðsins kemur fram að heildareignir til greiðslu lífeyris námu í árslok 1998 12.056 milljónum króna. Samvinnulífeyrissjóðurinn varð 60 ára 1. janúar síðastliðinn og er einn af elstu lífeyrissjóðum á landinu, en aðeins lífeyrissjóður KEA og Lífeyrissjóður ríisstarfsmanna eru eldri, að sögn Margeirs Daníelssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins.