FÆREYSKIR stúdentar munu ná að útskrifast þetta vorið, eftir að í gærmorgun náðist samkomulag milli færeyskra framhaldsskólakennara og landstjórnarinnar um nýjan kjarasamning kennara. Þeir höfðu boðað verkfall frá miðnætti á fimmtudagskvöld, og allt leit út fyrir að því yrði ekki afstýrt eftir að kennarar höfnuðu málamiðlunartilboði á þriðjudag.
Kennaraverkfalli afstýrt

FÆREYSKIR stúdentar munu ná að útskrifast þetta vorið, eftir að í gærmorgun náðist samkomulag milli færeyskra framhaldsskólakennara og landstjórnarinnar um nýjan kjarasamning kennara. Þeir höfðu boðað verkfall frá miðnætti á fimmtudagskvöld, og allt leit út fyrir að því yrði ekki afstýrt eftir að kennarar höfnuðu málamiðlunartilboði á þriðjudag. Þar með hefðu engin próf farið fram í færeyskum framhaldsskólum og ekki verið hægt að útskrifa stúdenta. Eftir samningafund sem stóð alla aðfaranótt föstudags var sætzt á að kennarar fengju 6,5% launahækkun á næstu tveimur árum.

Raðnauðgari dæmdur

EINN stórtækasti raðnauðgari sem um getur í sögu Bretlands var dæmdur á fimmtudag á grundvelli tólf ákæruatriða, og í gær setti lögregla upp sérstaka símalínu fyrir fórnarlömb nauðgarans. Lögreglan telur að með því sé hugsanlegt að "um 100 fórnarlömb finnist til viðbótar." Afbrotamaðurinn, Richard Baker, er 34 ára gamall plötusnúður sem getið hefur sér orð fyrir að vera bæði myndarlegur og kvensamur. Er Baker grunaður um að hafa framið kynferðisglæpi víðar en í Bretlandi.

Viðskiptastríð magnast

VIÐSKIPTASTRÍÐ Bandaríkjanna og Evrópusambandsins (ESB) magnaðist í gær er yfirvöld í Bandaríkjunum sögðust myndu setja refsitolla á vörur frá ESB-löndunum sem næmu tæplega fjórtán og hálfum milljarði króna, ef innflutningsbann á hormónakjöt frá Bandaríkjunum til Evrópu yrði ekki afnumið. Charlene Barshefsky, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, sagði Bandaríkin hins vegar tilbúin til samningaviðræðna.