ÓLAFUR Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í ræðu sem hann flutti á Dalvík að viljinn og hugvitið hefði reynst sú auðlind sem ein gæti bjargað byggðum landsins. Tillögur um stórframkvæmdir eða stórrekstur hefðu ekki reynst sá bjargvættur sem ætlað var. Ganghjól tímans hefði eytt þeim á undraskömmum tíma.
Forsetinn um landsbyggðavandann Viljinn og hugvitið skipta mestu

ÓLAFUR Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í ræðu sem hann flutti á Dalvík að viljinn og hugvitið hefði reynst sú auðlind sem ein gæti bjargað byggðum landsins. Tillögur um stórframkvæmdir eða stórrekstur hefðu ekki reynst sá bjargvættur sem ætlað var. Ganghjól tímans hefði eytt þeim á undraskömmum tíma.

"Í brýnni umræðu um vanda byggðanna við aldarhvörf er hollt að sækja fyrirmyndir og hvatningu til sveitarfélaganna við Eyjafjörð sem á fjölskrúðugan hátt hafa brugðist við breyttu umhverfi og skapað sér ný tækifæri til sóknar. Dugnaður, hagsýni og hugvit heimamanna hafa reynst dýrmæt auðlind. Með henni hafa byggðarlögin báðum megin fjarðarins treyst stöðu sína og opnað íbúum nýjar leiðir.

Við þekkjum öll dæmi um tillögugerð sem flestu átti að bjarga; áform um stórframkvæmdir eða stórrekstur sem gæti orðið allsherjar elexír. Ganghjól tímans eyddi hins vegar því orðaflóði á undraskömmum tíma, jafnvel með slíkri glettni að sumt hljómar nú sem hreinar öfugmælavísur.

Á meðan þessi orðræða lék í eyrum, fór kannski inn um annað og út um hitt, voru hér af fólkinu sjálfu stigin skref, mörg og markviss, til framfara og búbóta, aukinnar menntunar og hagsældar, nýrra viðskipta og þjónustu. Fyrirtækin smá og meðalstór voru þar í fararbroddi. Uppspretta árangurs var hjá ykkur; viljinn og hugvitið reyndust sú auðlind sem ein getur bjargað byggðum Íslands.

Sendinefndir að sunnan sem flestu ætluðu að bjarga

Þær eru margar sendinefndirnar að sunnan eða erlendis frá sem hingað hafa komið á undanförnum áratugum og sagst flestu geta bjargað en farið síðan fljótt aftur án nokkurra athafna eða umsvifa.

En heimamenn hafa haldið sínu striki, létu gestahjalið ekki villa sér sýn, breyttu sjálfir bátum, keyptu skip, reistu með eigin afli verksmiðjur og nýtískuleg iðjuver til fullvinnslu á fiski og matvælum, efldu skóla og þjónustu, skerptu skilning á sögu og arfleifð. Smátt og smátt unnu þið slíka sigra að nú er Eyjafjörður að allra dómi sú byggð sem í samspili og mótvægi við höfuðstaðinn sjálfan getur á nýrri öld orðið drifkraftur í framför Íslands alls," sagði Ólafur Ragnar.