SÖLUMIÐSTÖÐ hraðfrystihúsanna hf. seldi í gær öll hlutabréf úr eigu dótturfélagsins Jökla hf. fyrir 1.500 milljónir kr. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins keypti bréfin. Verðmætustu hlutabréfin, miðað við markaðsgengi, eru hlutabréf Jökla í Útgerðarfélagi Akureyringa hf. og Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda hf.
Sölumiðstöðin selur FBA hlutabréf fyrir 1.500 milljónir króna

Fjármunir notaðir til

að styrkja aðalrekstur

SÖLUMIÐSTÖÐ hraðfrystihúsanna hf. seldi í gær öll hlutabréf úr eigu dótturfélagsins Jökla hf. fyrir 1.500 milljónir kr. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins keypti bréfin. Verðmætustu hlutabréfin, miðað við markaðsgengi, eru hlutabréf Jökla í Útgerðarfélagi Akureyringa hf. og Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda hf.

Sala hlutabréfanna er liður í endurskipulagningu rekstrar SH, að sögn Róberts Guðfinnssonar stjórnarformanns. Hann getur þess að fengist hafi ágætis verð fyrir hlutabréfin og félagið haft góðan hagnað af fjárfestingunni. Fjármunirnar verði notaðir til að styrkja aðalrekstur félagsins, sem er sala á sjávarafurðum á alþjóðamarkaði. "Við teljum að þessir peningar séu betur komnir í okkar eigin rekstri," segir Róbert.

Hlutir í ÚA og SÍF verðmætastir

Jöklar hf. eru fjárfestingarfélag, að fullu í eigu Sölumiðstöðvarinnar. Það átti 10,5% hlut í Útgerðarfélagi Akureyringa hf. og tæplega 9% hlut í Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda hf. Miðað við markaðsvirði eru þetta verðmætustu eignirnar sem Fjárfestingarbanki atvinnulífsins keypti í gær. Þriðja verðmætasta eignin er væntanlega 1,7% eignarhlutur í Tryggingamiðstöðinni hf. Af öðrum hlutabréfum má nefna 5,2% hlut í Skagstrendingi hf. á Skagaströnd, 3% eignarhlut í Hraðfrystihúsinu hf. í Hnífsdal, um það bil 1% hlut í Þorbirni hf. í Grindavík, 1% í Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi og 1% í Þormóði ramma ­ Sæbergi hf. á Siglufirði. Eru þá ótaldir minni hlutir.

Svanbjörn Thoroddsen, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta FBA, segir að fyrirtækið kaupi hlutabréfin í þeim tilgangi að selja þau aftur síðar enda séu hlutabréfaviðskipti hluti af starfsemi fyrirtæksins. Hann kveðst ánægður með verðið og segir að hlutabréfin séu almennt vel seljanleg. Hins vegar myndi FBA taka sér einhvern tíma í að miðla þeim áfram.

Vara við óraunhæfum væntingum

Fram kemur í tilkynningu SH til Verðbréfaþings Íslands að söluhagnaður af bréfunum, að frádregnum sköttum, nemi liðlega 260 milljónum kr. Jafnframt er skýrt frá því að unnið sé að úttekt á hlutdeildarfélögum SH í Rússlandi og ekki sé ólíklegt að færa beri varúðarafskriftir vegna þeirra í sex mánaða uppgjöri SH. Að sama skapi muni koma til gjaldfærsla vegna skipulagsbreytinga hjá SH, meðal annars vegna starfslokasamninga. Róbert Guðfinnsson segir að með þessu séu stjórnendur SH eingöngu að vara fjárfesta við að byggja upp óraunhæfar væntingar vegna umgetins söluhagnaðar af hlutabréfunum.