HÉRAÐSDÓMUR Akureyrar úrskurðaði í gær breska ríkisborgarann Kio Alexander Ayobambele Briggs, sem ákærður hefur verið fyrir að standa að innflutningi mikils magns E-taflna, í farbann þar til dómur gengur í máli hans í héraði, þó ekki lengur en til 15. september næstkomandi. Kröfu ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist yfir Kio Briggs var hins vegar hafnað.
Gæsluvarðhaldskröfu yfir Briggs hafnað

Í farbanni þar

til dómur fellur

HÉRAÐSDÓMUR Akureyrar úrskurðaði í gær breska ríkisborgarann Kio Alexander Ayobambele Briggs, sem ákærður hefur verið fyrir að standa að innflutningi mikils magns E-taflna, í farbann þar til dómur gengur í máli hans í héraði, þó ekki lengur en til 15. september næstkomandi. Kröfu ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist yfir Kio Briggs var hins vegar hafnað.

Í úrskurði dómsins segir að ekki hafi verið færð fram nein sérstök rök fyrir því að almannahagsmunir krefjist þess að ákærði sitji í gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur. Briggs var fundinn sekur í héraðsdómi Reykjavíkur um innflutning á E-töflum 11. mars síðastliðinn og dæmdur í sjö ára fangelsi, en Hæstiréttur ómerkti úrskurðinn á fimmtudag og vísaði málinu heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar.

Kveðst vilja mæta fyrir dóm

Ákæruvaldið benti m.a. á að með hliðsjón af alvarleika sakarefna þætti nauðsynlegt að Briggs sæti í gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengi í málinu, auk þess sem hann væri útlendingur án fastrar búsetu hérlendis og því mætti ætla að hann reyndi að komast úr landi ef hann gengi laus.

Af hálfu ákærða var þessum sjónarmiðum mótmælt og engin hætta sögð á að Briggs reyndi að komast úr landi, þar sem það væri nánast ómögulegt enda hefði vegabréf hans verið tekið af honum. Hann hefði auk þess engan áhuga á að koma sér undan að mæta fyrir dóm í málinu.

Dómurinn féllst á að nokkur hætta gæti verið á að Briggs reyndi að koma sér úr landi ef hann gengi laus, en telja yrði vægara úrræði, svo sem farbann, nægjanlegt til að koma í veg fyrir að hann færi af landi brott.