MASSIMO D'Alema, forsætisráðherra Ítalíu, reyndi í gær að fullvissa þjóð sína um að ekki væri ástæða til að óttast að skálmöld, í líkingu við þá sem ríkti á Ítalíu seint á áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda, væri að ganga í garð á nýjan leik.
D'Alema stappar stálinu í Ítali

Róm. Reuters.

MASSIMO D'Alema, forsætisráðherra Ítalíu, reyndi í gær að fullvissa þjóð sína um að ekki væri ástæða til að óttast að skálmöld, í líkingu við þá sem ríkti á Ítalíu seint á áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda, væri að ganga í garð á nýjan leik. D'Alema sagði hins vegar að morðið í fyrradag á Massimo D'Antona, háttsettum ráðgjafa ítalska vinnumálaráðherrans, væri aðför að ítölsku lýðræði sem Ítalir yrðu að svara með því að sýna samstöðu.

"Ég vil fullvissa ítölsku þjóðina um að þeim, sem stóðu fyrir þessu tilræði, mun ekki takast að steypa Ítalíu aftur í það ástand sem ríkti á "árum blýsins"," sagði D'Alema á fréttamannafundi í gær, áður en hann fór til að vera viðstaddur útför D'Antonas.

"Ár blýsins" var heitið sem gefið var skálmöldinni, er ríkti á árunum í kringum 1980 vegna ummerkjanna sem byssukúlur öfgamanna skildu eftir í gangstéttum á vettvangi pólitískra hryðjuverka.Hörð viðbrögð/25