BÚAST má við að á annað hundrað milljóna króna komi í hlut Íslendinga og að um sextíu manns verði ráðnir til starfa ef ákveðið verður að taka hluta kvikmyndarinnar "Mars", með leikaranum Val Kilmer í aðalhlutverki, hér á landi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur íslenska kvikmyndafyrirtækið Pegasus átt í viðræðum við Warner Bros. í Bandaríkjunum um að taka hluta myndarinnar á hér.
"Mars" kvikmynduð á Íslandi?

60 manns yrðu ráðnir

BÚAST má við að á annað hundrað milljóna króna komi í hlut Íslendinga og að um sextíu manns verði ráðnir til starfa ef ákveðið verður að taka hluta kvikmyndarinnar "Mars", með leikaranum Val Kilmer í aðalhlutverki, hér á landi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur íslenska kvikmyndafyrirtækið Pegasus átt í viðræðum við Warner Bros. í Bandaríkjunum um að taka hluta myndarinnar á hér. Ákvörðunar er að vænta innan skamms.

Í frétt í bandaríska tímaritinu Variety , sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær, segir að myndin eigi að fjalla um fyrsta geimfarann sem fer til plánetunnar Mars, en þar verður hann strandaglópur. Áætlað er að tökur hefjist í lok ágúst eða september á Íslandi og í Ástralíu. Tímaritið segir að samningar við leikarann Val Kilmer um að leika aðhlutverkið séu á lokastigi.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru leikstjóri myndarinnar og aðstandendur einkum að leita að hrauni sem minnir á Mars og hafa þeir þegar kynnt sér myndir af ýmsum stöðum á landinu. Líklegt er að leikstjórinn komi hingað ásamt föruneyti innan fárra vikna til að kanna aðstæður, ef ákveðið verður að taka myndina hér.