SÍF er nú komið með tæpan þriðjung allra saltfiskviðskipta á Spáni og með um 20% viðskipta með saltfisk í heiminum eftir kaup félagsins á Armengol, aðalkeppinauti sínum á Spáni. Velta SÍF verður að þessu loknu um 22 milljarðar króna. E&J Armengol S.A. hefur í gegnum tíðina verið öflugasti keppinautur dótturfélaga SÍF hf. á Spáni, Union Islandia S.A. og Commercial Heredia S.A.
SÍF kaupir 70% í Armengol á Spáni

Er með 20%

saltfisksölu á heimsmarkaði

SÍF er nú komið með tæpan þriðjung allra saltfiskviðskipta á Spáni og með um 20% viðskipta með saltfisk í heiminum eftir kaup félagsins á Armengol, aðalkeppinauti sínum á Spáni. Velta SÍF verður að þessu loknu um 22 milljarðar króna.

E&J Armengol S.A. hefur í gegnum tíðina verið öflugasti keppinautur dótturfélaga SÍF hf. á Spáni, Union Islandia S.A. og Commercial Heredia S.A. Félagið hefur keypt frá keppinautum SÍF hf. á Íslandi um 3000 tonn af saltfiski á ári, ásamt því að hafa keypt saltfisk frá Færeyjum og Noregi. Velta félagsins á síðasta ári var um 3000 milljónir peseta eða um 1,5 milljarðar ísl. kr. og hefur reksturinn gengið vel, einnig er eiginfjárstaðan sterk.

Vörumerki félagsins er þekkt á meðal kaupenda á Spáni og hefur félagið yfir að ráða öflugu dreifikerfi á afurðum sínum. Félagið hefur aukið sölu sína á fullunnum saltfiskafurðum verulega á undanförnum misserum, ásamt því að sérpakka stórum hluta af sínum vörum í neytendapakkningar. Einnig dreifir félagið léttsöltuðum frystum flökum, reyktum laxi o.fl. afurðum. Um 60 starfsmenn starfa hjá félaginu í dag og ekki er gert ráð fyrir breytingu á því.

Styrkir stöðuna á markaðnum

Gunnar Örn Kristjánsson, framkvæmdastjóri SÍF, segir kaupin á 70% hlutafjár í Armengol afar mikilvæg fyrir félagið. "Armengol er mjög öflugt í framhalds- og fullvinnslu afurða úr saltfiski og með gott dreifingarkerfi. Þetta eykur breiddina hjá okkur og styrkir stöðu okkar á markaðnum verulega, enda hefur Armengol veitt okkur meiri samkeppni en nokkur annar keppinautur á markaðnum ," segir Gunnar Örn Kristjánsson.

Markaðshlutdeild SÍF/22