ÍSLENSKA landsliðið í körfuknattleik var aðeins hársbreidd frá sigri á Hvít-Rússum í undankeppni Evrópumótsins í Slóvakíu í gær. Lokatölur urðu 62:63 þar sem Hvít- Rússar gerðu sigurkörfuna á síðustu sekúndu leiksins. Staðan í hálfleik var 32:29 fyrir Ísland. Ef Ísland hefði unnið væri það komið áfram í riðlakeppni EM. "Það var grátlegt að tapa þessum leik á lokasekúndunni.


KÖRFUKNATTLEIKUR

Hársbreidd frá sigri

ÍSLENSKA landsliðið í körfuknattleik var aðeins hársbreidd frá sigri á Hvít-Rússum í undankeppni Evrópumótsins í Slóvakíu í gær. Lokatölur urðu 62:63 þar sem Hvít- Rússar gerðu sigurkörfuna á síðustu sekúndu leiksins. Staðan í hálfleik var 32:29 fyrir Ísland. Ef Ísland hefði unnið væri það komið áfram í riðlakeppni EM.

"Það var grátlegt að tapa þessum leik á lokasekúndunni. Það var gríðarleg spenna í lokin og allt gat gerst. Við vorum yfir 62:61 þegar 40 sekúndur voru eftir. Hvít-Rússar tóku skot að körfunni þegar 16 sekúndur voru eftir en hittu ekki. Guðmundur Bragason náði frákastinu, en var ýtt út af vellinum og þeim var dæmdur boltinn. Það var fáránlegur dómur. Þeir tóku síðan skot sem Guðmundur varði út af, en nýttu vel síðustu sekúndurnar og settu niður sigurkörfuna þegar ein sekúnda var eftir," sagði Pétur Hrafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri KKÍ og fararstjóri íslenska liðsins.

Guðmundur Bragason og Helgi Jónas Guðfinnsson voru bestu leikmenn Íslands. Helgi Jónas gerði 18 stig, Guðmundur 16, Herbert Arnarson 8, Friðrik Stefánsson 7, Páll Axel Vilbergsson 6, Friðrik Ragnarsson 3, Falur Harðarson 3 og Birgir Örn Birgisson 1.

Önnur úrslit í gær voru þau að Rúmenar unnu Wales 96:53 og Slóvenar unnu Kýpurbúa 72:64. Íslenska liðið er með fjögur stig eins og Rúmenar og Hvít-Rússar, en Slóvakar eru efstir með 6 stig. Wales og Kýpur hafa tapað öllum leikjunum. Ísland á að leika við Slóvaka í dag og Rúmena á morgun og verður að vinna annan leikinn til að komast áfram í riðlakeppnina.