Baráttan í fyrirrúmi "Þetta var baráttuleikur á milli tveggja jafnra liða en ég held að bæði lið geti verið sátt við úrslitin. Vissulega bökkuðum við eftir markið, en komum svo sterkir inn undir lokin og hefðum getað stolið sigrinum," sagði Njáll Eiðsson, þjálfari ÍR, eftir jafnteflisleik,1:1, við Þróttara á Valbjarnarvelli í gærkvöldi.


Baráttan í fyrirrúmi

"Þetta var baráttuleikur á milli tveggja jafnra liða en ég held að bæði lið geti verið sátt við úrslitin. Vissulega bökkuðum við eftir markið, en komum svo sterkir inn undir lokin og hefðum getað stolið sigrinum," sagði Njáll Eiðsson, þjálfari ÍR, eftir jafnteflisleik,1:1, við Þróttara á Valbjarnarvelli í gærkvöldi.

Fyrirfram var búist við hörkuleik enda áttust við liðin tvö sem féllu úr úrvalsdeildinni í fyrra. Sterkur vindur setti svip á leikinn og gerði leikmönnum erfitt fyrir. ÍR-ingar sóttu undan vindinum í fyrri hálfleik og náðu snemma forystu. Eftir slæm mistök Axels Gomez, markvarðar Þróttar, barst boltinn til Njarðar Steinarssonar sem renndi honum í autt markið. Þróttarar sóttu nokkuð eftir markið, en ÍR- ingar vörðust vel og áttu nokkrar skyndisóknir án þess þó að skapa verulega hættu við mark Þróttara. Hættulegasta færið fékk þeirra besti maður, Sævar Þór Gíslason, en Axel varði vel. Hinumegin fékk Hreinn Hringsson ákjósanlegt færi en brenndi af.

Þróttarar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru flótlega mark. Varnarmaður ÍR-inga var að gaufa með boltann við hornfánann er Ingvi Sveinsson rændi af honum boltanum. Hann renndi honum út í teiginn og þar kom Hreinn aðvífandi og skoraði með föstu skoti neðst í markhornið. Eftir markið voru Þróttarar meira með boltann, en þeim tókst ekki að færa sér það í nyt. Sérstaklega voru Hreini mislagðir fætur við mark ÍR-inga.

Eftir því sem á leikinn leið komu Breiðhyltingar sterkari í leikinn og hefðu með smáheppni getað stolið sigrinum í lokin. Jafntefli verða að teljast sanngjörn úrslit í þessum baráttuleik. Daði Dervic og Páll Einarsson léku best Þróttara, en Sævar Þór Gíslason og Kristján Halldórsson stóðu upp úr í liði ÍR- inga.

Maður leiksins:

Daði Dervic, Þrótti.

Morgunblaðið/Arnaldur NJÖRÐUR Einarsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir ÍR og fagnar því, en það dugði ekki til sigurs því Þróttarar jöfnuðu í síðari hálfleik. Rafn Marteinsson skrifar