Ljóð mitt til þín, heimur, er harmur þess, sem veit að hérvist manns er fremur lítils virði. Þú hefir mörgum hitað í hjartans innsta reit og hlegið dátt að þjáning fólks og byrði. Sjá, töfraborgum mínum þú hefir öllum eytt, ­ til einskis hefi ég reist þær upp frá grunni, ­ og skildir aldrei hjartað, þetta hjarta, sem er þreytt af þrjátíu ára leit að hamingjunni.


VILHJÁLMUR FRÁ SKÁHOLTI

VERALDARLJÓÐ

Ljóð mitt til þín, heimur, er harmur þess, sem veit

að hérvist manns er fremur lítils virði.

Þú hefir mörgum hitað í hjartans innsta reit

og hlegið dátt að þjáning fólks og byrði.Sjá, töfraborgum mínum þú hefir öllum eytt,

­ til einskis hefi ég reist þær upp frá grunni, ­

og skildir aldrei hjartað, þetta hjarta, sem er þreytt

af þrjátíu ára leit að hamingjunni.Með töfraborgum mínum ég týndi því, sem var

öll tjáning stríðsins, er ég þráði að heyja. ­

En þetta er gamla sagan af þeim, er þyrna bar,

af þrá, sem fæddist aðeins til að deyja.Af yndi varstu snauður ­ þeirri ást, sem gæfu ber,

en áttir nóg af brennivíni og hórum. ­ ­

Ég leitaði til einskis að mildi, sem var mér

þó meira virði en gullið bankastjórum.

­ ­ ­

Ef ég hefði vitað, hve vítamínsnauður þú ert,

er viskan þráir að dafna, líkt og blóm í runni,

ég hefði aldrei gist þig, ­ þitt glys er einskisvert,

og gengið af mér dauðum í fæðingunni.

Vilhjálmur (Guðmundsson) frá Skáholti, 1907­1963, var ljóðskáld í Reykjavík og setti oft svip á miðbæinn þar sem hann fékkst m.a. við blómasölu og rak verzlun á tímabili í Aðalstræti með list- og antíkmuni. Í kvæðum sínum er hann gjarnan málsvari lítilmagnans og lýsir örlögum gæfusnauðra einstaklinga sem leita sér lífsnautna í borginni. Fyrsta ljóðabók hans kom út 1931 og þrjár gaf hann út síðar.