VERSLUNARKEÐJAN Hraðkaup hefur gengið frá samningi við eigendur Stykkiskaupa ehf. um kaup á fasteignum og verslunarrekstri Stykkiskaupa í Stykkishólmi. Hraðkaup tekur við rekstrinum frá 1. júní næstkomandi en þetta er fjórða verslun keðjunnar. Að sögn Jóns Scheving Thorsteinssonar, forsvarsmanns Hraðkaups, verður verslunin í Stykkishólmi rekin með svipuðu sniði í sumar og verið hefur.
Baugur teygir anga sína vestur á land

Kaupir verslunina Stykkiskaup

VERSLUNARKEÐJAN Hraðkaup hefur gengið frá samningi við eigendur Stykkiskaupa ehf. um kaup á fasteignum og verslunarrekstri Stykkiskaupa í Stykkishólmi. Hraðkaup tekur við rekstrinum frá 1. júní næstkomandi en þetta er fjórða verslun keðjunnar.

Að sögn Jóns Scheving Thorsteinssonar, forsvarsmanns Hraðkaups, verður verslunin í Stykkishólmi rekin með svipuðu sniði í sumar og verið hefur.

"Við sjáum ekki ástæðu til að breyta miklu í byrjun enda er verslunin rekin með glæsibrag. Fyrri eigendur munu starfa hjá okkur og við ætlum að nota sumarið til að læra á þennan markað," segir Jón.

Fyrri eigendur Stykkiskaupa hafa rekið verslunina í fimm og hálft ár. Einn þeirra, Ingibjörg Benediktsdóttir, segist þess fullviss að kaup Hraðkaups á versluninni verði bæjarbúum til góðs og til þess fallin að efla verslun í Stykkishólmi.

"Hraðkaup leggur fyrst og fremst áherslu á ferskvöru og langan afgreiðslutíma. Markmið okkar er að færa út á landsbyggðina þá byltingu sem hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum," segir Jón.

Verslunin í Stykkishólmi verður sú fjórða í Hraðkaupskeðjunni. Fyrsta verslunin var opnuð í Borgarnesi í byrjun árs 1998 og í október sama ár var önnur verslun opnuð á Egilsstöðum. Sú þriðja var svo opnuð á Akureyri í mars síðastliðnum.

Um samkeppni frá öðrum verslunum á svæðunum segir Jón: "Við höfum ekki mætt neinni samkeppni að ráði, enda teljum við okkur vera að auka þjónustuna í þessum byggðarlögum."

Hann bætir við að í könnun sem Stefán Ólafsson lektor vann um fólksfækkun á landsbyggðinni hafi komið fram að fjárfesting í verslun og þjónustu víða úti á landi sé lítil og störfin fá.

"Það er oft lítil verslun og þjónusta á þessum stöðum. Það kom einnig fram í þessari könnun að fólk á landsbyggðinni vill ekki einungis betra vöruverð heldur einnig meira vöruúrval og gæði. Það vill ferska vöru og fjölbreytileika."

Jón fullyrðir að ekki standi til að opna fleiri Hraðkaupsverslanir á næstunni en ýmislegt sé þó til skoðunar.

"Við förum okkur hægt og viljum gera þetta vel. Þetta tekur allt sinn tíma, að fá allt til að virka og skilgreina stefnuna í markaðsmálum á hverjum stað. Menn eru fyrst og fremst að vanda sig, njóta þess að vera kaupmenn og geta komið með eitthvað nýtt og skemmtilegt inn á svæði og gert þetta vel. Ef maður ætlar bara að vaða einhvers staðar inn og reyna að ná sem mestri veltu þá endar það bara í ljótum og skítugum búðum með fáu fólki og lélegri þjónustu. Þá er ekkert gaman að vera kaupmaður lengur," segir Jón að lokum.