Íslenskt mál Umsjónarmaður Gísli Jónsson 1006. þáttur HUNDUR var tekinn af lögreglunni. Hvað merkir þessi setning? Tók lögreglan hund? Eða komu einhverjir og tóku hund sem lögreglan var með? Ég tek þetta dæmi vegna þess að þolmynd í íslensku getur verið tvíræð.
Íslenskt mál

Umsjónarmaður Gísli Jónsson

1006. þáttur

HUNDUR var tekinn af lögreglunni. Hvað merkir þessi setning? Tók lögreglan hund? Eða komu einhverjir og tóku hund sem lögreglan var með?

Ég tek þetta dæmi vegna þess að þolmynd í íslensku getur verið tvíræð. Klukkan sjö á laugardaginn fyrir viku heyrði ég í Útvarpinu: "Nótaskipið Sigurður . . . var tekið af norsku strandgæslunni." Nú er ekki víst að ókunnugir hefðu skilið þetta allir á einn veg. En klukkan átta var sagt í germynd , og getur engum misskilningi valdið: "Norska strandgæslan tók Sigurð . . ." Þarna hafði sú framför orðið að tekin voru af tvímæli með því að setja germynd í stað þolmyndar.

Umsjónarmaður er ekki að agnúast út í þolmynd. Hún er oft ágæt. Menn þurfa hins vegar að gæta þess að nota hana ekki, þegar vafi getur leikið á um merkinguna, og er þá hægurinn hjá að skipta um og nota germynd.

Germynd er svo nefnd, vegna þess að þá er einkum sagt frá því hvað hver gerir : Karlinn sló. Á latínu sögðu menn activum , og er komið af ago sem einmitt merkir: ég geri . Stundum slettum við nútíma Íslendingar þessu og segjum um duglega menn og framkvæmdasama að þeir séu aktífir .

Ef setning er í germynd og sögn hennar stýrir falli, kemur í ljós hvað hver gerir við hvern : Karlinn sló túnið . Nú segir almenna reglan að þolanda slíkra setninga megi breyta og setningunni allri úr germynd í þolmynd sem Rómverjar nefndu passivum . Þeir sem lítt eru við afstöðu eða dáðir kenndir, eru stundum á máli okkar nefndir passífir . En lítum aftur á bóndann og túnið. Ef við snúum setningunni um túnasláttinn yfir í þolmynd, kemur út: Túnið var slegið af bóndanum. Þetta skilst, en varla talar svona nokkur óvitlaus maður. Og það gæti farið í verra. Hvað merkir setningin: Höfuðið var slegið af bóndanum?

Við erum svo heppin að eiga hina þriðju mynd sagna, svokallaða miðmynd . Orðið hefur svo sem enga merkingu. En miðmyndin verður til með því að bæta afturbeygilega fornafninu við sögnina í germynd. Þetta fornafn var sik , seinna sig og var á latínu nefnt pronomen reflexivum . Hugsum okkur gamalt dæmi: Að klæða + sik klæðask , seinna klæðast . Ef sögn er í fyrstu persónu fleirtölu, hættir okkur til að fara skakkt með miðmyndina. Í staðinn fyrir: Við bjuggumst við, má stundum heyra "bjuggustum", en þetta mun á undanhaldi með almennri skólagöngu og bóknámi.

Sjálft heitið miðmynd segir svo sem ekkert, stóð áður. Kannski hefur þótt best að hafa nafngiftina hlutleysislega, því að miðmyndin hefur hvorki meira né minna en þrenns konar merkingu:

1) Hún táknar það sem menn gera við sjálfa sig . Dæmi: Maðurinn klæddist rólega, meðan félagar hans hresstust á morgunkaffinu.

2) Hún táknar það sem fólk gerir hvort við annað , kallast gagnvirk merking. Sígild dæmi: Mennirnir börðust , konurnar kysstust .

3) Hún hefur þolmyndarmerkingu: Fjallið sást ekki (= varð ekki séð) fyrir þoku. Líkið fannst ekki (= varð ekki fundið) fyrr en vorið eftir.

Þess skal svo geta að lokum að hér hafa flókin mál verið einfölduð meira en æskilegt væri.

Hermann Þorsteinsson, okkur kunnur málvarnarmaður, vill vita sem mest um orðtakið að eitthvað fellur í ljúfa löð . Bæði meistari minn Halldór Halldórsson og próf. Jón G. Friðjónsson hafa fjallað rækilega um þetta í bókum sínum Íslenzkt orðtakasafn og Mergur málsins . Um merkinguna eru menn sammála: Allt fellur í ljúfa löð merkir: fullt samkomulag verður og friður góður með mönnum.

Um upprunann flækir það skýringar að til var að fornu tvenns konar löð . Annars vegar = gestrisni, góð viðtaka. Egill Skallagrímsson skrökvaði því að konungur hefði boðið sér löð, ­ og hins vegar löð (lauð) = verkfæri með misstórum götum, notað við smíðar. En þar sem ljúfur er fast fylgiorð með löðinni, verður hér tekin fram yfir sú skýring að löð í fyrrnefndu orðtaki merki vinarþel, skylt sögninni að laða að sér.

Um annað atriði í bréfi Hermanns Þorsteinssonar, þ.e. ávarpsorð þula í vörpunum, vísa ég til 997. þáttar, þar sem ég svaraði Sighvati Finnssyni um sama efni.

Vinsemd og áhuga Hermanns Þorsteinssonar þakka ég svo sérstaklega.

Líf

Þegar sólfáninn hefst upp að hún

og hlýindin ná upp á brún,

er svo dásamlegt þor

um svo dásamlegt vor,

að dyrnar þær hlaupa út á tún.

(Þorvaldur í Hraungerði.) Mannlýsing

"Hann var hinn mesti skartmaður, sællífur og drykkfelldur. Vel gefinn maður, hagmæltur, lítill vexti, en fríður sýnum og viðfelldinn maður, manna örlátastur við hvern sem var, enda gengu upp eigur hans, og dánarbú hans var í miklum skuldum við konung og Ólafsvíkurverzlun. Hann var vel að sér í fornlögum, unnandi fróðleik og kveðskap; var utanlands 1762 og 1765, og var það með fram vegna fræðistarfsemi."

(Páll E. Ólason: Ísl. æviskrár, III. bindi .)

Auk þess fær fréttastofa Sjónvarpsins stig (11. maí) fyrir samstarfendur í skjátexta. Hins vegar stóð í blaði: "Erfitt hjá hjónafólki og sambýlingum." Hvað skyldi orðið "hjónafólk" merkja?