Lengi hefur verið vitað að dyslexía stafar af truflun á eðlilegri heilastarfsemi. Undanfarinn áratug hafa rannsóknir heilasérfræðinga einkum beinst að talstöðvum heilans sem m.a. greina hljóð, sem þangað berast, og túlka þau. Frá þessari rannsókn var skýrt í breska stórblaðinu The Times 14. maí sl.
Samband dyslexíu

og jafnvægisskyns

Lengi hefur verið vitað að dyslexía stafar af truflun á eðlilegri heilastarfsemi. Undanfarinn áratug hafa rannsóknir heilasérfræðinga einkum beinst að talstöðvum heilans sem m.a. greina hljóð, sem þangað berast, og túlka þau. Frá þessari rannsókn var skýrt í breska stórblaðinu The Times 14. maí sl.

Í ljós hefur komið að dyslexíubörn eiga oft erfitt með að samhæfa hreyfingar og vinna úr upplýsingum, hafa skert jafnvægisskyn og sýna önnur einkenni sem benda til þess að rót vandans sé að finna í litla heilanum en ekki málstöðvum heilans.

Til að kanna það gerðu vísindamenn við Sheffield-háskóla í Bretlandi nýlega rannsókn og báru saman heilastarfsemi tólf sjálfboðaliða. Sex þeirra þjáðust af dyslexíu en hinir ekki. Fylgst var með heilastarfsemi þessa hóps meðan hann framkvæmdi ákveðnar fingrahreyfingar sem hann hafði lært áður en rannsóknin fór fram. Síðan voru fólkinu kenndar nýjar fingrahreyfingar sem það hafði ekki kunnað áður.

Tölvusneiðmyndir af heilanum sýndu mikinn mun á hópunum tveimur meðan þessar fingraæfingar fóru fram. Í dyslexíuhópnum var virkni í heilaberkinum í hægra hveli litla heilans aðeins 10% af virkni eðlilega hópsins og gilti það jafnt um gamalkunnar handahreyfingar og nýjar og sömuleiðis um starfsemi heilabarkarins meðan námið stóð yfir.

Töldu vísindamenn að þessar niðurstöður styddu þá tilgátu að skýringuna á dyslexíu væri að finna hægra megin í litla heilanum. Truflun á starfsemi þar gerði það að verkum að erfitt væri að tileinka sér nýja leikni og jafn erfitt að beita leikni sem margoft hefði verið æfð og ætti fyrir löngu að vera orðin ósjálfráð.

ÁSTÆÐA lesblindu leynist e.t.v. í hægra heilahvelinu.