"En syndin er lævís og lipur og lætur ei standa á sér," orti Steinn Steinarr í kvæðinu um Jón Kristófer kadett í Hernum. Nú um stundir er það eins með enska tungu gagnvart íslensku og syndina gagnvart Jóni Kristófer að hún er bæði lævís og lipur og lætur ei standa á sér. Nú er það svo að sá sem þetta skrifar hefur ekkert á móti enskri tungu, nema síður sé.
Rabb

ÍSL- ENSKA?

"En syndin er lævís og lipur og lætur ei standa á sér," orti Steinn Steinarr í kvæðinu um Jón Kristófer kadett í Hernum. Nú um stundir er það eins með enska tungu gagnvart íslensku og syndina gagnvart Jóni Kristófer að hún er bæði lævís og lipur og lætur ei standa á sér.

Nú er það svo að sá sem þetta skrifar hefur ekkert á móti enskri tungu, nema síður sé. Hefur raunar dálæti á því ágæta máli en vill umfram allt halda tungumálunum ensku og íslensku aðskildum, þótt skyld séu.

Enskan sækir á úr öllum áttum. Á fjórða tug ára höfum við horft og hlýtt á sjónvarp þar sem enska er meginmálið og engilsaxneskt efni ráðandi, ­ að vísu með íslenskum textum. Textað efni sjónvarpsins hefur verið áhrifamikill tungumálakennari. En það er að hætta sér út á hálan ís að ræða um mál og málfar. Margt er þar smekkbundið og fátt óyggjandi. Þó skal það gert.

Á dögunum las ég kynningarbækling frá einkaskóla eða stofnun sem fæst við að kenna fólki tungumál. Þar eru allmargir útlendingar við störf og þeim hrósað í hástert. Þess var getið að þeir töluðu "fullkomna íslensku". Mér hnykkti við. Gaman væri að kynnast þessu fólki. Ég þekki ekki nokkurn mann, sem talar fullkomna íslensku. Hér er auðvitað á ferðinni hrá þýðing úr ensku. Þar er tekið svona til orða ef menn eru vel talandi á ensku. Raunar er það sagt um ensku að hún sé auðveldasta mál í heimi að tala illa en heimsins erfiðasta mál að tala vel. Ekki dreg ég í efa að erlendu kennararnir við umræddan málaskóla tali bærilega, jafnvel prýðilega íslensku. Það er hinsvegar af og frá að þeir tali fullkomna íslensku. Raunar var líka sagt í þessari auglýsingu um einhvern kennaranna: "Hans móðurmál er . . . " þar hefði átt að standa: "Móðurmál hans er . . ."

Meðal þess sem veður uppi í fjölmiðlum, og hefur raunar gert nokkuð lengi, er að segja að hitt og þetta sé "komið til að vera". Hrá ensk þýðing. Nýlega mátti lesa í Morgunblaðinu: "Það virðist því ljóst að þessar ferðir á hundasleðum um Ísland eru komnar til að vera." Af hverju má ekki segja, að nú gefist mönnum kostur á að ferðast á hundasleðum á Íslandi? "Our love is here to stay" segir í gömlum bandarískum dægurflugutexta. Það er gott og gilt á ensku en ekki hægt að hráþýða á íslensku.

Annað hrátt úr ensku sem sífellt glymur í eyrum er "í gegnum". Ferðamenn koma heim frá útlöndum "í gegnum Kaupmannahöfn" eða "í gegnum London". Af hverju nægir ekki að segja "um Kaupmannahöfn", eða "um London"? Flugmenn eru sem betur fer að mestu hættir að segja farþegum: "Við erum nú að hækka flugið í gegnum 18 þúsund fet á leið í 35 þúsund fet sem verður flughæð okkar til Kaupmannahafnar í dag." Og segja nú oftar en ekki: "Við erum í 18 þúsund feta hæð og að hækka flugið upp í 35 þúsund fet . . ." Húrra fyrir Flugleiðum!

Í snilldarþýðingu Matthíasar Jochumsonar á sálmi Ingemanns segir: "Kynslóðir koma, kynslóðir fara," og allir skilja hvað við er átt. Auglýsendur eru í vaxandi mæli farnir að nota orðið kynslóð um nýjar vörugerðir. Í auglýsingablaði var nýlega talað um nýja kynslóð af skóm. Við notum skó til að koma og fara. En það er varla hægt að tala um kynslóðir í því sambandi. Líka er talað um nýjar tölvukynslóðir. Enn er þýtt beint úr ensku. Er ekki nóg að segja nýjar tölvur eða nýjar tölvugerðir? Þetta kemur kynslóðum ekkert við. En auðvitað má líka halda því fram að ekkert sé á móti því að gefa orðinu kynslóð útfærða merkingu með þessum hætti. Rótgróin íhaldssemi mín í þessum efnum leyfir mér hinsvegar ekki að nota kynslóð um skó eða tölvur. En mér þótti þó taka steininn úr er í fyrirsögn heilsíðuauglýsingar bílasala nú snemmsumars stóð "Generation Golf ­". Engin tilraun til þýðingar. Golf-kynslóðin. Vond auglýsing fyrir annars sjálfsagt ágætan bíl.

Í upphafi þessarar málsgreinar nefndi ég Matthías og Ingemann. Ég nefni þá aftur. Sálmur Ingemanns, sem allir þekkja, byrjar á orðunum: "Dejlig er jorden". Matthías segir: "Fögur er foldin". Verður betur gert? Varla.

Gaman er að lesa auglýsingar og velta fyrir sér málfari. Sérkennilegt er að sjá auglýsta fótlaga skó. Seint mundi ég kaupa mér skó, sem ekki væru fótlaga. Raunar geri ég ráð fyrir að allir skór séu fótlaga. Rétt eins og allir hanskar eru handlaga. Mér hefur þó fundist auglýsingamönnum vaxa fiskur um hrygg að undanförnu. Oft tekst þeim að beita orðaleikjum með eftirminnilegum hætti enda eiga auglýsingar að vera eftirminnilegar. Þegar safnað var skóm til að senda til þróunarlanda var fólk hvatt til að láta gamla skó "ganga aftur". Vel orðað. Stórverslun auglýsir undir orðunum "Fyrir alla muni". Framleiðandi sjálfblekunga segir "Beittur penni". "Láttu símann ekki vefjast fyrir þér" segir í auglýsingu um þráðlausa síma. Ýmislegt fleira vel orðað mætti tína til.

Stundum mistekst slagorðasmíð herfilega. Einhverntíma sá ég málað á bíl: "Naut er okkar fag". Ég var næstum búinn að valda árekstri, þegar ég marglas þetta og það rann upp fyrir mér að þetta var auglýsing frá fyrirtæki sem seldi nautakjöt. Nýlega sá ég á flettispjaldi við alfaraleið: "Frístundir þínar ­ okkar fag". Afkáralegar málleysur að ekki sé meira sagt. Rétt eins og þegar sagt er að kaffitegund "setji brag á sérhvern dag". Og af hverju halda bílasalar að menn kaupi frekar bíla ef þeim er ekið í sjónvarpsauglýsingum gegnum eld eða með offorsi yfir lækjarsprænu þannig að vatn gusast í allar áttir?

Hin hallærislega kveðja "Eigðu góðan dag", "Have a nice day", heyrist æ oftar. Bandaríski rithöfundurinn Bill Bryson segir í einni ágætra bóka sinna, að þegar þetta sé sagt við hann sé freistingin næstum ómótstæðileg að svara: "Ég hafði nú ætlað mér annað." Í staðinn fyrir að segja "eigðu góða helgi", er þá ekki einfaldara að segja "hafðu það gott um helgina?" Og við þurfum ekki að segja "bless, bless" þótt enskumælandi segi gjarnan bye bye, sem orðabók Websters segir raunar vera barnamál.

Á sínum tíma tókst að bægja burt dönskuslettum og margvíslegum dönskum áhrifum úr töluðu og rituðu máli. Menn voru á varðbergi gagnvart dönskuslettum. Nú þarf að skera upp herör gegn ísmeygni enskunnar. Hún má ekki leika okkur eins og syndin í kvæði Steins Steinarrs:

"Hún situr um mannanna sálir

og sigur af hólmi hún ber."

Við verðum að sjá til þess að svo fari ekki.

Höfundur er áhugamaður um íslenska tungu.

EIÐUR GUÐNASON