Arnfríður Arnmundsdóttir Kveðja frá Kvenfélagi Grensássóknar.

Það eru góðar minningar tengdar henni Arnfríði. Hún kom til þess að verða prestskonan okkar í Grensássókn þegar maður hennar, séra Jónas Gíslason, tók þar við embætti. Þá var margt enn með frumbýlingshætti hjá hinum unga söfnuði, aðstaða léleg í einskonar bráðabirgðahúsnæði og hægt gekk með byggingaframkvæmdir safnaðarheimilisins, sem líka skyldi verða kirkja. En þau hjón létu það ekki á sig fá. Full bjartsýni efldu þau kjark okkar, hvöttu heldur en löttu og tókst ásamt okkur öllum að sjá draum um húsnæði kirkjunnar rætast er safnaðarheimilið var vígt sem helgidómur Grensássafnaðar, átta árum eftir stofnun hans. Arnfríður gerðist strax virkur félagi í Kvenfélagi Grensássóknar og gekk til liðs við kirkjukórinn. Hún var mjög traustur og góður félagi, í senn hlédræg og hreinskiptin. Hún var góðum gáfum gædd og gott að deila með henni geði og störfum. Minnistætt er hversu ötullega hún lagði fram krafta sína í kvenfélaginu með brennandi áhuga á safnaðarstarfinu og framgangi alls kirkjustarfs, enda einlæg í trú. Ánægjulegt var að verða þess aðnjótandi að heimsækja þau hjón. Alúð og látleysi einkenndi þau bæði og varla er hægt að minnast svo annars þeirra að hins sé ekki getið um leið, svo samrýnd og samstiga voru þau í lífi sínu. En sr. Jónas hvarf frá söfnuðinum til annarra starfa. Arnfríður hélt áfram að leggja kvenfélaginu lið, allt uns hún flutti með manni sínum austur í Skálholt, er hann tók við embætti vígslubiskups þar. En tengslin við Grensássöfnuð héldust alltaf þótt samverustundirnar yrðu strjálli. Því miður fór heilsu sr. Jónasar hrakandi og hann lét af störfum af þeim sökum. Vissulega reyndi á þrek Arnfríðar, sem enn sem fyrr studdi mann sinn dyggilega, þrátt fyrir að hún sjálf væri ekki hraust. Eftir fráfall sr. Jónasar þurfti Arnfríður að glíma við eigin sjúkdóm. Nú er því stríði lokið og hvíldin fengin, aðskilnaður þeirra hjóna ekki lengri. Að leiðarlokum eiga þessi fátæklegu orð að þakka samveruna með Arnfríði og frábær kynni. Guð blessi Arnfríði Arnmundsdóttur og varðveiti fjölskyldu hennar og ættingja. Guð blessi minningar um prestshjónin sr. Jónas og Arnfríði.

Kvenfélag Grensássóknar.