Ásta Sigrún Guðjónsdóttir Mig langar að skrifa nokkrar línur um móður mína sem lést háöldruð á Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum.

Hún mamma var mjög sérstök kona. Hún eignaðist 13 börn og ól upp eitt fósturbarn og var þess vegna alltaf mikið fyrir að hafa fólk í kringum sig. Þegar maður elur upp svona stóran hóp, þarf að halda uppi aga á öllum, og það hafði hún mamma svo sannarlega, enda veitti ekki af því.

Mamma hafði mjög gaman af allri skemmtun, dans, söng og fótbolta sem hún hafði yndi af enda þekkti hún alla í sínu liði, sem var ÍBV. Hún hafði einnig gaman af því að lesa og hlusta á útvarp og í seinni tíð hlustaði hún mikið á sögur af spólum. Hún mamma var ákaflega mikil "lady" og hafði mjög gaman af því að halda sér til og hélt hún því allt fram í andlátið. Mamma var mjög minnug og mundi hún til dæmis alla afmælisdaga í fjölskyldunni sem þó er orðin ansi stór og var hún ávallt þátttakandi í öllum athöfnum sem í fjölskyldunni voru allt fram á síðasta dag.

Hún varð veik 3. maí og fór þá á spítala, en náði þá að rífa sig upp úr því og fór heim á Hraunbúðir, þar sem hún hafði dvalist sl. tvo mánuði, og var þá hress í tvo daga en lést svo 10. maí sl.

Ég kveð þig elsku mamma mín með söknuði, en ég veit að nú ert þú búin að hitta alla þá sem á undan þér fóru. Ég veit líka að þú horfir á þínar Glæstu vonir, sem þú hafði svo gaman af að enginn vildi trufla þig á meðan þær voru í sjónvarpinu. Ég veit að þú dansar þar sem þú ert, þar sem þú gast ekki verið með okkur í brúðkaupi sonardóttur þinnar, hennar Unu Sigrúnar.

Hún rís úr sumarsænum í

silkimjúkum blænum

með fjöll í feldi grænum

mín fagra Heimaey.

Við lífsins fögnuð fundum

á fyrstu bernskustundum

er sólin hló á sundum

og sigldu himinfley.

(Ási í Bæ.) Far þú í friði, elsku mamma mín, þín dóttir

Kristín.