Arnfríður Arnmundsdóttir Nú þegar elskuleg vinkona mín, Arnfríður Arnmundsdóttir, eða Adda eins og ég kallaði hana, hefur kvatt okkur, hrannast minningarnar upp hver af annarri. Enda samfylgdin orðin löng. Það var árið 1943 sem ég sá Öddu fyrst en það var á kristilegri samkomu í Frón á Akranesi þar sem starfsemi KFUM og KFUK fór fram. Ég var þá nýlega farin að vera með í kristilega félagsskapnum í Reykjavík og tók fljótt virkan þátt í sönglífinu sem þá stóð með miklum blóma. Um þetta leyti var mikill samgangur á milli Akraness og Reykjavíkur og einmitt á þessum tíma var mikil kristileg trúarvakning á báðum stöðum.

Stundum fórum við í smá hópum upp á Akranes og var þá oft troðið upp með söng, við sungum fyrir þau og þau fyrir okkur, en á einni slíkri samkomu er Adda mér einkar minnisstæð. Ég ásamt fleirum var þá komin á söngpallinn og við mér blasti stúlka á næstfremsta bekk í hárauðri blússu með fallegt lausliðað hár niður á axlir og með svolítið skásett augu. Mér fannst hún hafa mikið við sig, bæði lagleg og greindarleg. Ekki vissi ég þá að við ættum eftir að bindast slíkum vináttuböndum sem raun varð á.

En Adda kom til Reykjavíkur um haustið og auðvitað lágu leiðir okkar saman í KFUM og KFUK. Því þann félagsskap elskuðum við báðar. Hún hafði þá lokið sínum unglingaskóla á Akranesi en hafði mikla löngun til að læra á píanó. Hún bæði vann fyrir sér og sótti píanótíma og hafði tækifæri til að æfa sig. Við vorum ekki lengi að kynnast. Ég bauð henni heim við fyrsta tækifæri, enda áttum við samleið, þar sem báðar voru Vesturbæingar.

Adda hafði mjög næmt tóneyra og þýða og fallega söngrödd. Báðar lærðum við að spila á gítar og það var okkar yndi að syngja og spila saman og oft vorum við fleiri og þá gjarnan sungið í röddum.

Þegar ég hugsa til æskuáranna fyllist hugur minn þakklæti fyrir að hafa átt svona góða vinkonu. Adda var svo ekta. Ég gat treyst henni fullkomlega, hún var ákveðin stúlka og vönd að virðingu sinni. Það fór enginn með hana lengra en hún sjálf vildi. Okkur fannst báðum þegar við töluðum saman seinna á ævinni að það hefði verið mikil gæfa að fá að vera með í kristilega félagsskapnum og báðar kynntumst við okkar góðu eiginmönnum þar. Vinátta og gott samband hélst ávallt á milli okkar og þeirra hjóna, þótt stundum liði langt á milli þess að við hittumst eins og gengur.

Tíu ár voru þau í Vík í Mýrdal, fyrstu prestskaparár sr. Jónasar. Einu sinni heimsóttum við þau þangað okkur til mikillar ánægju. En þau komu af og til í bæinn og þá fannst mér alltaf hátíð, því nær undantekningarlaust heimsóttu þau okkur og þá var mikið skrafað. Eiginmenn okkar þekktust mjög vel, og áttu mörg sameiginleg áhugamál. En svo lá leið þeirra hjóna til Danmerkur ásamt sonum þeirra tveim þar sem sr. Jónas var prestur Íslendinga í fimm ár. Þá var skrifast á og jafnvel skipst á gjöfum. Ég á mörg bréf frá Öddu sem ég geymi í sérstökum sendibréfakassa og sum svo gömul að þau eru skrifuð á Akranesi.

Svo merkilega vildi til að fyrir tæpum tveim árum fluttum við í sömu blokk í Kópavogi. Eftir að við vissum að við myndum flytjast í sömu blokkina, töluðum við oft saman. Adda batt miklar vonir við þennan stað, þar sem þau væru komin miklu nær sonum sínum og henni Sveinbjörgu systur hennar, sem reyndist þeim ómetanleg hjálparhella.

En nú hafa þau bæði verið kölluð frá okkur, sambýlið varð ekki langt. Ekki hvarflaði að okkur að þau ættu svona stutt eftir ólifað, en eins og Adda sagði eitt sinn við mig: "Peta, finnst þér ekki gott að við vitum ekkert fyrir?" "Jú, mér finnst það ein af Guðs góðu gjöfum," svaraði ég. Þá var sr. Jónas mjög langt leiddur af sínum sjúkdómi og erfitt fyrir hana að annast hann, en það hafði hún gert af mikilli þrautseigju.

En allt í einu var hún orðin veik af krabbameini sem uppgötvaðist tiltölulega fljótt eftir að þau fluttu. Hún barðist hetjulegri baráttu við þennan illvíga sjúkdóm og var stundum ótrúlega hress og bjartsýn þó hún gæti ekki annast manninn sinn lengur. Það varð aðeins hálft ár á milli þeirra, henni varð að ósk sinni: að lifa hann. Hún vissi hversu erfitt myndi fyrir hann að missa hana.

Undanfarið, þegar ég hef vitjað Öddu á spítala, hef ég ósjálfrátt hugsað um himininn og hversu gott er að geta beðið til Jesú fyrir þeim sem manni þykir vænt um. Eftir að Adda kvaddi þennan heim hefur sálmur sem ég held mikið uppá verið í huga mér.

Ó, að þig, Jesú, ég göfgað gæti. Sem

girnist nýtt og þakklátt hjarta mitt.

Þú gafst mér himin þinn, son Guðs sæti.

Með sælu allri, fyrir nafnið þitt.Ég þakka, frelsari, þér af hjarta.

Að þú leiðst kvöl og dauða fyrir mig.

Þú gafst mér friðinn og framtíð bjarta.

Já, fyrir vor og sumar lofa eg þig.Við komum senn upp til sala hæða.

Hvað sakar þá þótt ferðin reynist ströng?

Við öðlumst kórónu og gnóttir gæða.

Og grátur allur snýst í feginsöng.

(Þýð. Bjarni Jónsson.) Við hjónin vottum sonum Öddu og ástvinum öllum okkar dýpstu samúð.

Petrína Steinadóttir.