Arnfríður Arnmundsdóttir Það er sárt að missa þá sem okkur þykir vænt um. Og það er enn sárara að missa þá sem þykir vænt um okkur. Þess vegna finn ég fyrir fátækt nú, þegar Adda er dáin.

Arnfríður Arnmundsdóttir var mikilfengleg kona ­ í stíl við nafnið. Um leið var Adda jafn látlaus og heimilisleg og gælunafnið. Hún var kærleiksríkur vinur og einn af máttarstólpum samfélagsins. Hún var ekki í hópi þeirra sem eru þekktir og fá heiðursmerki. Hún var hljóðlátur boðberi kærleikans. Eiginmaðurinn, sr. Jónas Gíslason, vígslubiskup, var góður fræðari og predikari, sem margir fengu að hlusta á. Við vorum færri, sem nutum predikunar Arnfríðar. En predikun hennar var ekki síður góð og eftirminnileg. Það var ekki predikun úr ræðustóli. Það var predikun með lífi. Áhrif slíkrar predikunar eru sterk og varanleg. Sú predikun gæti haft einkunnarorðin: "Þjónið hver öðrum í kærleika". Kærleiksþjónusta Öddu varð mér undirstrikun á orðum Jesú um að "sá sem mikill vill verða meðal yðar, sé þjónn yðar". Þeim orðum verður ekki fylgt í framavon, heldur í auðmýkt og kærleika.

Þegar ég kynntist Jónasi fyrir áratugum, undraðist ég hve hann gat tekið þátt í mörgu og gert það vel. Mér fannst það stundum ofurmannlegt. En þegar ég kynntist Öddu, fékk ég skýringuna. Í henni átti hann svo kærleiksríka og fórnfúsa eiginkonu og vin, að við lá að hún gengi of langt í þjónustu sinni. Hún vildi allt gera til að hjálpa manni sínum að verða góður þjónn í víngarði Drottins. Mannlega talað var hún máttarstólpinn í lífi hans. Jónas var ekki hálfur maður án Öddu. Þess vegna var þeim báðum dýrmætt, að hún skyldi fá að lifa mann sinn. Hann þurfti á henni að halda til hinstu stundar, og þrátt fyrir að Adda væri komin með alvarlegt krabbamein, tókst henni að standa upprétt og lifa hálfu ári lengur en Jónas.

Með sama hætti var Adda mikilvægur og traustur vinur fjölskyldu sinnar og vina. Umhyggja hennar var sönn og einlæg. Því er erfitt fyrir hina nánustu að missa Öddu nú, aðeins hálfu ári eftir andlát Jónasar. En minningin um þau eru dýrmæt. Í fimmtíu ár voru þau ein eining, en þó svo ólíkir persónuleikar. Þau gátu skipst á skoðunum, og þau gátu rifist, en fyrst og fremst stóðu þau saman. Saman voru þau sterk og mótandi í samtíð sinni. Jónas var sterkari út á við, en Adda var sterkari heima fyrir. Þar var undirstaðan lögð ­ ekki bara í fjölskyldunni, heldur í allri tilveru þeirra. Orð Biblíunnar urðu að veruleika: "Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists". Í vissum skilningi er viðeigandi og gott að hugsa til þess, að Adda og Jónas fá nú að vera saman í eilífð Drottins.

Ég tel það gæfu að hafa fengið að vera vinur og náinn samstarfsmaður Öddu og Jónasar í nálægt 30 ár. Það hefur auðgað líf mitt og kennt mér ótalmargt um mannlífið, hjónabandið, kirkjuna, trúarlífið ­ og ekki síst um kærleiksþjónustuna mikilvægu. Ég kveð Öddu í þakklæti og virðingu. Lífspredikun hennar talar skýrt, og nú við andlát hennar finnst mér sem orð Páls postula séu orð Öddu til okkar:

"Vakið, standið stöðugir í trúnni,

verið karlmannlegir, verið styrkir.

Allt hjá yður sé í kærleika gjört."

(1. Kor. 16:13­14.) Guð styrki og blessi syni, tengdadætur, barnabörn, systur og aðra ástvini.

Með samúðarkveðju og þakklæti frá okkur hjónunum.

Stína Gísladóttir og Óli Aadnegard.