Guðleif Jónsdóttir

Elsku amma mín. Það er komið að kveðjustund, þú ert búin að fá hvíldina sem þú þráðir svo mikið. Það var á mánudaginn síðasta sem mamma hringdi í mig og sagði að þú værir orðin veik. Leiðin milli Blönduóss og Borgarness hefur aldrei verið eins löng og þá, en þegar ég var komin til þín áttum við góða samverustund og gátum rætt ýmislegt. Aðallega þurftir þú að koma kveðjum og skilaboðum til vina og ættingja og þar sem ég sat hjá þér um nóttina komu margar góðar minningar upp í hugann. Á þriðjudag var mjög af þér dregið og lítið hægt að tala við þig, það virtist á tímabili sem þú værir komin aftur í rúmið þitt á Egilsgötunni og að við værum þar tvær saman eins og við vorum eftir að afi dó. Að alast upp hjá þér og afa var mjög gott, en hjá ykkur bjuggum við mamma þar til í júní 1963 og ég var svo komin aftur til þín í september eftir að afi dó. Það var alltaf mjög kært á milli okkar, elsku amma mín, og margar samverustundir koma upp í hugann, til dæmis ferðirnar upp á Kolásinn á berjamó, þá fórum við með nesti og tíndum ber allan daginn. Það var alltaf mikill gestagangur hjá ykkur afa, ég held að það hafi verið í færri skipti sem við sátum bara fjögur við eldhúsborðið en það var þitt stolt að taka vel og rausnarlega á móti gestum og alltaf varst þú tilbúin að hjálpa ef leitað var til þín. Eftir að ég fór að búa á Blönduósi þurftir þú að fylgjast vel með öllu hjá okkur Sigurjóni og stelpunum okkar. Við töluðum saman oft í viku og gátum rætt um alla hluti. Lengi vel komst þú heimsókn til okkar en síðustu árin treystir þú þér ekki til þess. Þann 2. maí var Sandra fermd. Við töluðum oft saman því þú vildir fylgjast vel með öllu og baðst mig um að passa að hafa nóg af öllu. Það var þinn helsti eiginleiki að miðla og gefa. Elsku amma mín, ég þakka þér kærlega fyrir allar samverustundirnar, þín verður sárt saknað og við biðjum góðan guð að geyma þig og varðveita. Þín,

Sigrún.