Sigurmundur Jörundsson Nú eru þeir flestir farnir eða á förum sem lifðu síðustu ár skútualdarinnar hér á landi. En við vorum þónokkuð margir piltarnir frá Bíldudal sem 1927­30 upplifðum þessi seinustu ár þeirra atvinnuhátta. Einn af þeim seinustu en jafnframt eftirminnilegustu var nú að kveðja, Sigurmundur Jörundsson, sonur þeirra hjóna Steinunnar Gunnarsdóttur og Jörundar Bjarnasonar, skútuskipstjóra á Bíldudal.

Hann var æskuvinur minn. Við kynntumst raunar ungir drengir um 1920 og frá þeim fyrstu kynnum varð síðan óslitin ævilöng vinátta sem aldrei bar skugga á.

Enn þykir mér t.a.m. vænt um lítið atvik frá þessum fyrstu árum í kynnum okkar Sigurmundar. Ég bjó þá í skjóli ömmu minnar og föðurfólks norður í Aðalvík. Þá verður það sumarið 1922 að skip Jörundar föður Sigurmundar kemur inn á víkina undan stormi. Léttbátur var sjósettur og Sigurmundur kom í heimsókn, sem ekki síst jók á hróður minn meðal leikfélaganna. Rræktarsemi og trygglyndi af þessu tagi fannst mér æ síðan eitt af höfuðeinkennum hans.

Þann hálfa fjórða áratug sem ég síðan bjó á Bíldudal og stundaði sjó var líf okkar Sigurmundar býsna tengt þó að sjaldnast værum við raunar skipsfélagar. Við deildum kjörum í kreppunni þegar gufulínuskipin voru gerð út frá Bíldudal og eignuðumst síðan hvor sinn bátinn þegar rétti úr kútnum á stríðstímanum.

Hvort sem var í samvinnu eða samkeppni reyndist Sigurmundur ætíð sami drengurinn. Hann var með afbrigðum jafnlyndur og svo ósérhlífinn að hvarvetna var til þess tekið. Þannig man ég hann best sem fremstan meðal jafningja.

Sigurmundur gerði sér sérstakt far um að fylgjast vel með allri þróun í sjávarútvegi allan þann viðburðaríka tíma sem hann lifði enda var hann að auki fiskimaður af guðs náð.

Nú þegar vegir skilja um sinn sendi ég eftirlifandi konu hans, syni, dætrum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur þakklátum huga fyrir alla vináttu fyrr og síðar.

Blessuð sé minning Sigurmundar Jörundssonar.

Guðbjartur Ólason.