Grímur Jónsson

Einhverjar fyrstu minningar mínar eru bundnar ferðum mínum yfir á Ölduna, þetta stóra og reisulega hús á sjávarkambinum við Fjarðarstrætið sem staðið hefur í móti öldum hafsins nú bráðum í heila öld. Þarna iðaði og ólgaði mikið mannlíf og fjölskrúðugt en þar bjuggu þá Jóhanna móðursystir mín og Grímur Jónsson með strákunum Rúnari og Sigurði en síðan komu þau frændsystkin mín hvert á fætur öðru, Sigrún, Jón, Ása og Bárður. Nokkru innar í Mánagötu bjó Ragnar móðurbróðir minn og Sigríður, kona hans með börnum sínum, Margréti, Bárði og Ásrúnu og fáeinum húslengdum ofar uppi á horni Sólgötu og Fjarðarstrætis bjó Jón, móðurbróðir minn og Salóme með sonum sínum, Grétari, Erni Bárði og Friðriki, og voru því þarna á litlum bletti saman komnir flestir niðjar þeirra gömlu hjónanna úr Bolungarvík, Bárðar og Sigrúnar, sem bjuggu í sambýli við foreldra mína í Fjarðarstræti 33. Hið einfalda líf þessa tíma með endalausum leikjum sumarlangan daginn og snjóhúsagerð á vetrum er horfið en minningarnar lifa. Grímur Jónsson er alltaf í þessum minningum, öllum ógleymanlegur sem kynntust honum, leiftrandi af lífi, kímni og óborganlegri frásangarlist. Ég held ég hafi aðeins einu sinni kynnst manni sem hafði viðlíka frásagnargáfu og Grímur Jónsson og líkt var þeim báðum farið, að þeir voru svo miklir menn stundarinnar, að ómögulegt var að sviðsetja þá, frásagnarlist beggja var eðlileg, ólærð og meðfædd.

Grímur hafði óvenjulega fjölbreyttar gáfur. Allt lék í höndum hans og hann var bráðskarpur og fljótur að tileinka sér hvaðeina sem hann þurfti við að fást. Hann var loftskeytamaður, fyrst á togurum og varðskipum, síðan lengi hjá Flugmálastjórn. Hann var bráðflinkur fagmaður sögðu þeir sem vit höfðu á enda hlaut hann það hlutskipti í stórfjölskyldunni að vera bjargvættur í öllum tæknimálum og viðgerðarmaður á öll tól og tæki. Ekki var hann síðri í bókhaldi og reyndar svo margt til lista lagt að segja má að hann væri þúsund þjala smiður. Hann var örgeðja og orðheppinn eldhugi sem kom inn í þessa afskaplega jarðbundnu móðurætt mína sem oftast hugsaði seint en örugglega enda hafði Grímur næmt auga á það skoplega í fari tengdafólksins og fór vel með. Þeir sem hittu á góða stund með Grími munu aldrei gleyma honum og sögum hans. Maðurinn var skáld sem skrifaði ekki. Sögur hans voru aðeins skráðar í foksand andartaksins og geymast í minningu þeirra sem fengu að njóta.

Síðari árin voru þeim Jóhönnu móðursystur minni á ýmsan hátt erfið. Grímur hefur verið að berjast við illvígan sjúkdóm nú í nokkur ár og dauðinn því líkn úr því sem komið var. Jóhanna hefur gengið gegnum ótrúlegar sjúkdómsraunir á liðnum árum en alltaf staðið upp á nýjan leik. Hún er hetja. Allt hennar líf hefur raunar verið eitt samfellt kraftaverk. Henni hefur verið gefið óvenjumikið æðruleysi og seigla. Ég veit að það verður tómlegt hjá henni nú, þegar lífsförunautur hennar nú í bráðum hálfa öld er frá henni farinn, en það væri ólíkt henni að láta deigan síga. Ég sendi henni og börnum hennar og fjölskyldum fyrir hönd okkar systkinanna og fjölskyldna okkar hjartanlegustu samúðarkveðjur og bið þeim Guðs blessunar.

Bárður G. Halldórsson.