Lárus Garðar Long Vinirnir heilsa ­ vinirnir kveðja. Nú hefur Lalli Long lotið í lægra haldi fyrir sjúkdómnum illvíga, langt um aldur fram.

Fyrsta bernskuminningin er frá æskuheimili Lalla á Stóru Heiði, en mæður okkar voru góðar vinkonur og söngsystur hjá Brynjólfi Sigfússyni sem stjórnaði kirkjukórnum og Vestmannakór í áratugi. Mér er ávallt minnisstætt, er ég sá föðurömmu Lalla í fyrsta skipti, var hún rúmliggjandi eftir fótbrot, sat uppi og reykti úr stórri pípu. Þvílíkt hafði ég aldrei augum litið ­ þótti mér þetta flott amma!

Æskuárin liðu svipað og hjá öðrum Eyjapeyjum. Lalli var snemma liðtækur í fótbolta og keppti með Þór enda alla tíð einlægur Þórari og var ósérhlífinn í áraraðir við undirbúning þjóðhátíða.

Lalli var af kunnu bjargveiðimannakyni í móðurætt, jafnan léttur í spori, er hann tók fram lundaháfinn og sótti sér í soðið.

Hann var yngstur fimm barna Bergþóru Árnadóttur og Jóhannesar Long, 17 ára missti hann föður sinn í flugslysi, veturinn 1948, en Jóhannes var þá verkstjóri við flugvallargerðina hér.

Á unglingsárunum átti Lalli sitt annað heimili á Sólvangi hjá Aðalheiði Árnadóttur og Ágústi Bjarnasyni.

Lalli lærði húsamálun hjá Guðjóni Scheving, og vann lengi við iðnina hjá Tryggva Ólafssyni, duglegur og vandvirkur, en 1971 urðu breytingar á högum er hann réðst verkstjóri hjá Fiskiðjunni og síðar hjá Vinnslustöðinni, er fyrirtækin voru sameinuð.

Alla tíð var Lalli orðlagður fyrir trúmennsku við húsbændur sína og vel látinn af öllu samstarfsfólki.

Fyrr á öldinni var líflegt í Eyjum, þegar vertíðarfólkið streymdi að úr öllum landshornum. Eyjapeyjarnir biðu spenntir ef strandferðaskipin komu með hópa í tuga- og hundraðatali. Margt þessa ágæta fólks ílentist hér og Lalli var svo lánsamur að í einum hópnum var höfðingleg stúlka ættuð úr Flatey á Skjálfanda, Unnur Hermannsdóttir, sem varð hans tryggi lífsförunautur.

Lengst af bjuggu þau í húsi er þau reistu að Túngötu 17. Þau eins og fleiri Vestmannaeyingar urðu fyrir þeirri döpru reynslu að heimilið nánast varð eyðileggingunni að bráð í jarðeldunum 1973 en þau gáfust ekki upp, sýndu mikinn kjark og dug, er þau endurbyggðu hús sitt á ný, og komu upp fögru heimili, þar sem Unnur hefur alltaf verið miðpunkturinn og haldið hús, sem ber myndarskap hennar fagurt vitni. Í gegnum tíðina hefur jafnan verið notalegt að koma á Túngötuna.

Börn og fjölskyldur Lalla og Unnar hafa notið þeirra forréttinda að eiga samstiga foreldra í leik og starfi.

Lalli og Unnur ferðuðust mikið um landið og nutu fegurðar íslenskrar náttúru jafnframt heimsókna til skyldmenna og vina. Þau áttu ómældar unaðsstundir við silungsárnar, Grenlæk og víðar.

Systur Lalla, Anna og Dóra, lifa bræður sína, er auk hans voru Árni og Ólafur, sem einnig kvöddu á besta aldri.

Sár harmur er nú kveðinn að samhentri fjölskyldu.

Um leið og ég þakka vináttu og ljúfar minningar bið ég alföður að veita öllum þeim, er sárast sakna, huggun og styrk um ókomna daga.

Jóhann Friðfinnsson.