Kristján Vernharður Oddgeirsson Kristján Vernharður ólst upp í foreldrahúsum í stórum systkinahópi. Hann var sjötti í röð tólf barna þeirra hjóna Aðalheiðar Kristjánsdóttur og Oddgeirs Jóhannssonar, útvegsbónda á Grenivík. Að honum stóðu sterkir stofnar úr Þingeyjarsýslu og Skagafirði. Hann var fríður sýnum og hafði þennan óvenju sterka ættarsvip allrar fjölskyldunnar. Ungur stundaði hann íþróttir, lék knattspyrnu með íþróttafélaginu Magna og var einnig mjög þolinn hlaupari. Ómissandi þótti hann líka í kirkjukórinn, söng þar með sinni háu og björtu tenórrödd, enda flugnæmur á músík. Honum þótti afar vænt um kirkju sína, færði henni gjafir og var líka heiðraður af kirkjukórnum. Á Hlöðum var mannmargt heimili og oft glatt á hjalla. Aðalheiður og Oddgeir bæði mjög söngelsk, og alltaf var sungið fjórraddað, bæði í beituskúrnum og heima þegar frístundir gáfust, en enginn vissi þá að þarna voru í hópnum margir upprennandi einsöngvarar. Ósjaldan kom fólk úr nágrenninu til að fá að syngja með á löngum vetrarkvöldum.

Faðir Kristjáns Vernharðs var sórhuga, byggði þriggja hæða íbúðarhús, sem fjölskyldan flutti í 1930. Hann rak umfangsmikla útgerð á Grenivík, og um leið og börnin uxu úr grasi fóru þau að vinna við útgerðina. Að mörgu þurfti að hyggja bæði á sjó og landi. Eftir að Oddgeir hætti skipstjórn tók sonur hans, Jóhann Adolf, við, þá aðeins 16 ára að aldri og mun það líklega einsdæmi að svo ungum manni væri falin slík ábyrgð. Hann var mjög aflasæll og naut mikillar virðingar sem skipstjóri. Hann lést 5. fyrra mánðar.

Hlutverk Venna, en svo var Kristján Vernharður ætíð nefndur af sínu fólki, var að stjórna allri landvinnslunni, það var ekki síður umfangsmikið, en annað sem viðkom útgerðinni. Vakað var um nætur til að gera að afla því allur fiskur var verkaður, saltaður og þurraður til útflutnings. Snyrtimennska var Venna í blóð borin, svo annálað var, og þótti sumum nóg um.

Eftir að Oddgeir hætti útgerðinni og síðasti Hákoninn var seldur varð það hlutskipti Venna að búa áfram á Hlöðum og annast aldraða foreldra sína, sem hann gerði af mikilli natni og ástúð en Oddgeir lést 1971 og Aðalheiður 1977. Eftir lát Aðalheiðar bjó Venni einn í stóra fjölskylduhúsinu á Hlöðum, og hefur það eflaust verið nokkuð einmanalegt í mesta skammdeginu og hann hefur eflaust hlakkað til sumarsins þegar von var á fjölskyldunni til sumardvalar, því þá var hann glaðastur þegar húsið fylltist af ættingjunum.

Fjölskyldan færir honum miklar þakkir fyrir fórnfýsi og fyrir móttökurnar á liðnum árum, það má segja að hlutverk hans í lífinu hafi verið að hugsa meira um aðra en sjálfan sig.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.) Lára og Guðrún.