Grímur Jónsson Vinur minn Grímur Jónsson radar- og flugradíómaður á Ísafirði er fallinn eftir röska baráttu við illvígan sjúkdóm. Vágest sem herjað hafði á hann um nokkurt skeið og glímt um líf hans og heilsu. Varðist hann lengi kröftuglega af djörfung og æðruleysi, stundum svo kappsamlega að vart mátti á milli sjá hvor hefði betur í baráttunni. Að lokum eftir snarpa viðureign birtist almættið í gervi dauðans. Grímur var allur, hann hafði öðlast kórónu lífsins. Lífið hafði sigrað að nýju rétt einu sinni.

Leiðir okkar Gríms lágu fyrst saman fyrir rúmum þremur áratugum er ég í bjartsýni ungs manns hóf rekstur lítils flugfélags frá Ísafjarðarflugvelli. Þar starfaði þá Grímur Jónsson radarmaður á vegum Flugmálastjórnar. Hann vakti strax athygli mína fyrir snaggaralega framkomu, greiðvikni en ekki síst fyrir skemmtilegan frásagnarstíl, kímni og leifturskarpa hugsun. Gimmi eins hann var jafnan kallaður varð brátt á vegi mínum í orðsins fyllstu merkingu. Ég var bíllaus, en hann hafði bíl til umráða og var oft á ferðinni milli radarsins sem staðsettur var í Hnífsdal og flugvallarins. Fékk ég því oft far með honum á milli staða. Urðu þessar ferðir upphaf langra og ánægjulegra samskipta okkar. Hófum við að ræða saman um alla skapaða hluti, hann hafði víða farið sem sjómaður á bátum, loftskeytamaður á togurum og varðskipum og m.a verið loftskeytamaður á TF-RÁN Katalínuflugbát Landhelgisgæslunnar. Hann hafði oft lent í margskonar hremmingum og mannraunum bæði til sjós og lands, meðal annars skipsskaða. Hann var hafsjór af fróðleik og skemmtilegum frásögnum af mönnum og málefnum. Í frásögn Gríms urðu löngu liðnir atburðir úr lífi hans og minni svo ljóslifandi að þeir hefðu getað átt sér stað rétt nýlega. Eiginlega fannst mér stundum eins og við hefðum alist upp á sama tíma þrátt fyrir tuttugu ára aldursmun. Svo skýrar voru frásagnir hans þegar best lét. Ekki flíkaði Grímur tilfinningum sínum við hvern sem var, en málefni fjölskyldunnar voru honum oft hugleikin. Vann henni allt er hann kunni, studdi hana með ráðum og dáð í stóru sem smáu. Grímur var afar bóngóður maður og jafnan fús að aðstoða hvern sem var ef eitthvað þurfti með. Leituðu því margir ráða og stuðnings hjá Grími með margvísleg mál. Hvort sem um var að ræða lögfræðileg álitamál, praktískar aðgerðir eða bókhald svo eitthvað sé nefnt. Fljótur var hann að greina kjarnann frá hisminu. Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn áttu hauk í horni þar sem hann var og leituðu fulltingis hans í ýmsum málum. Oft leiðbeindi Grímur fólki í lögfræðilegum álitamálum og rak hann stundum slík mál fyrir rétti þó ekki væri hann löglærður á nútíma vísu. Faðir hans hafði haft málafærsluréttindi og starfaði sem málafærslumaður á Ísafirði í áratugi fyrir daga háskólamenntaðra lögmanna þar. Einnig tók Grímur að sér aðstoð við menn og minni fyrirtæki varðandi gerð skattskýrslna og ársuppgjöra. Víðsýni, skörp greind og eðlislæg réttlætiskennd vísuðu honum veg til margbreytilegra verka.

Þegar leiðir okkar Gríms lágu fyrst saman var hann hættur til sjós og farinn að vinna í landi á aðflugsradarnum. Við sem flugum til Ísafjarðar á þeim árum sem radarinn var starfræktur munum vel þvílík bylting það varð til aukins flugöryggis að hafa slíkan búnað og hæfan stjórnanda sem gat leiðbeint og fylgst með framvindu aðflugsins einkum í slæmu veðri, látið vita af éljum og annarri úrkomu sem hamlaði skyggni í nágrenni flugvallarins og á aðflugsferli flugvélanna. Oft áttum við flugmenn og farþegar okkar Grími einum að þakka að aðflug til Ísafjarðar og lending tækist eins og ráð var fyrir gert.

Eftir að radarinn rann skeið sitt á enda og var lagður niður hóf Grímur störf í flugturninum á Ísafirði. Nutum við flugmenn því áframhaldandi reynslu hans þar. Var það bót í máli við radarmissinn að fá Gimma í turninn því hann var býsna glöggur að spá í útlit og veðurhorfur. Auk þess lífgaði hann stórlega upp á mannlífið á flugvellinum með nærveru sinni. Rúman aldafjórðung áttum við nærri daglegt samneyti og samstarf á einn eða annan hátt. Þrátt fyrir langar vaktir í flugturninum var hann boðinn og búinn hvenær sem eftir var leitað að nóttu sem degi að aðstoða og sinna útköllum vegna neyðar- og sjúkrafluga sem voru mjög tíð. Runnu þá oft saman vaktir og aukaútköll stundum sólarhringum saman svo nota varð hverja kríu til hvíldar. Nú eru tímar breyttir og aðrir siðir.

Fyrir hönd allra starfsmanna Flugfélagsins Ernis fyrr og síðar þakka ég samfylgdina og samstarfið. Hvíl í Guðs friði.

Ég sendi Jóhönnu Bárðardóttur, börnum og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hörður Guðmundsson.