Guðmunda F. Björnsdóttir Það er einkennileg tilfinning að geta ekki lengur litið inn hjá Mundu á Hellu, eins og við systkini mín vorum vön að kalla hana, og njóta alls þess sem hún hafði upp á að bjóða. Það ljómaði alltaf svo af henni að maður fylltist ósjálfrátt friði og vellíðan hjá henni. Munda tók það aldrei í mál að "hafa ekkert fyrir manni", enda sér maður hana fyrir sér í eldhúsinu að laga sitt rómaða súkkulaði á meðan líflegar umræður fara fram. Hún leiftraði af lífsþrótti og það er varla hægt að minnast hennar öðruvísi en með kímniglampa í augunum, tilbúna til að rökræða af þeirri víðsýni sem hún bjó yfir.

Þegar Mundu er minnst gerir maður sér grein fyrir því hve aldur er afstæður; það er dýrmætt að vera ungur í anda eins og hún var fram á seinasta dag. Óhætt er að segja að Munda hafi verið náttúrubarn. Hún ólst upp í faðmi fjallanna á Rauðnefsstöðum á Rangárvöllum og bjó síðar á Hlíðarenda í Fljótshlíð og undi sér vel í náttúrunni í samspili við sagnabrunn héraðsins. Munda var ein þeirra sem nutu þess að fræðast um umhverfi sitt og bjó yfir ýmsum fróðleik sem varðveist hefur kynslóð fram af kynslóð. Hún var t.d. alveg handviss um hver væri höfundur Njálu og las það af öllu því sem henni var í blóð borið. Hún var hluti af þeirri aldagömlu frásagnarhefð sem virðist vera að týnast niður með þjóðinni ­ ef til vill vegna þess að maður heldur að það sé alltaf hægt að sækja í þessa arfleifð. En það er ekki svo; upp á síðkastið talaði Munda nokkrum sinnum um að hún yrði að segja mér frá ágætri bók og persónu hennar sem ég þyrfti að kynnast. Ekkert hafði enn orðið úr því þegar yfir lauk. ­ Það er þessi söknuður sem maður finnur þá fyrir; að hafa ekki rætt um svo margt.

Ófáir hafa notið hjartagæsku Mundu ömmusystur minnar og átt hjá henni skjól. Hún átti hóp vina sem kunni að meta glaðværð hennar og hreinlyndi. Munda tók að sér börn Sigríðar systur sinnar að henni látinni og var sem amma barnabarna hennar. Elsku Munda, við á Hömrum viljum þakka þér fyrir allt það sem þú hefur gefið okkur og kveðjum þig með þessum ljóðlínum:

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga

tárin eru beggja orð.

(Ólöf frá Hlöðum.) Þuríður M. Björnsdóttir.