Valgerður Daníelsdóttir Okkur langar til að minnast föðurömmu okkar, Valgerðar Daníelsdóttur, með nokkrum orðum. Það eru forréttindi að fá að kynnast konu eins og Völu ömmu. Konu sem lifði nær alla þessa öld og upplifði mestu þjóðfélagsbreytingar sem íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum. Hún tileinkaði sér þessar breytingar með þeirri miklu jákvæðni sem alltaf einkenndi hana. Hún þurfti líka að ganga í gegnum meiri veikindi en flestir en stóð þau af sér með þrautseigju og bjartsýni, því hún var einstaklega lífsglöð og kát manneskja.

Amma var mikil ættmóðir og stolt af fjölskyldunni sinni. Það var ekkert sem veitti henni meiri ánægju en þegar afkomendur hennar komu saman t.d. í jólaboðum hjá Sigrúnu, útilegum, afmælum eða öðru slíku. Þetta hefur orðið til þess að fjölskyldan er samheldin og hittist nokkuð oft. Öll litlu langömmubörnin héldu mikið upp á hana. Það var svo gaman að heimsækja Völu "löngu" eins og Hafrún Hlín kallaði hana.

Hún hafði mjög gaman af að fá gesti og þá helst sem flesta sama daginn. Það kom enginn til hennar öðruvísi en að þiggja eitthvað í gogginn. Henni fannst það ekki nógu gott ef fólk þáði ekki eitthvað hjá henni. Jafnvel þegar hún var orðin mjög veik byrjaði hún á því að bjóða upp á nammi þegar komið var til hennar.

Hún hafði mjög gaman af að vera vel til höfð og passaði það vel fram á það síðasta, því aðeins sex dögum áður en hún lést bað hún um að það yrðu settar rúllur í hárið á sér. Þetta er smá dæmi um það hvernig hún hélt virðingu sinni til enda.

Elsku amma það er skrítið að geta ekki lengur farið niður að Lundi til að heimsækja þig. Það leið öllum betur eftir að hafa hitt þig, því lífsgleði þín var smitandi. Við þökkum þér fyrir samfylgdina og það sem þú hefur kennt okkur. Við söknum þín sárt en huggum okkur með því að nú hefur þú fengið hvíldina og ert komin til afa og Rúnars litla sem þú talaðir svo oft um.

Far þú í friði,

friður guðs þig blessi

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem) Hafdís, Hanna Valdís, Eydís og Garðar Már.