Valgerður Daníelsdóttir Það eru forréttindi að eiga ömmu, góða ömmu. Þannig ömmu átti ég. Nú er hún amma mín góða dáin og minningarnar streyma fram og þakklætið. Æska mín var svo samofin nærveru ömmu og afa á Ketilsstöðum. Á heimili þeirra skaust ég í heiminn jafn eðlilega og annað ungviði í sveitinni.Næstu fimmtán árin var ég hjá þeim í öllum mínum fríum, um sumur, jól og páska.

Við amma vorum samrýndar og áttum sameiginlegt áhugamál sem snérist um skepnurnar á bænum. Okkur leið vel í fjósinu. Amma kunni best að meta kýrnar.Góðar mjólkurkýr voru guðsgjöf. Fjósatíminn var líka kennslustund, þar vorum við, ég og Rúnar bróðir minn, spurð út úr Íslandssögunni, um öll ártölin sem amma mundi alla tíð en ég gleymdi í hraða lífsins. Ljóð voru yndi ömmu, ég vildi að ég kynni brot af þeim ljóðum sem amma mín kunni. Í sveitinni var vinnudagurinn langur og alltaf var amma mín að. Húsfreyja í sveit átti sjaldnast frí. En lífið er ekki alltaf dans á rósum. Þung voru spor ömmu minnar þegar heilsan leyfði ekki lengur búskap í sveitinni og hún flutti á mölina. Þá lauk líka á vissan hátt æsku minni. Ég þurfti að finna eitthvað annað að gera á sumrin. Árin í borginni voru ömmu minni oft erfið, afi vann úti og dagurinn gat verið langur. Þá voru margar krossgátur ráðnar. En leiðin lá aftur austur þegar afi hætti að vinna. Þau byggðu sér hús á Hellu og þar áttu þau heima saman síðustu árin, alltaf eins og nýtrúlofuð. Afi minn dó fyrir ellefu árum og eftir það bjó amma ein. Missir ömmu var mikill en hún var þakklát fyrir allan afkomendahópinn. Það veitti henni styrk og gleði. "Ættin mín á veggnum" sagði hún og hló og leit með hlýju og stolti á myndirnar sem alls staðar héngu.

Síðustu mánuði hefur heilsu ömmu minnar hrakað. Líkaminn látið undan en hugsunin alltaf skýr. Að kvöldi ellefta maí kvaddi hún þennan heim. Amma mín, þú hélst reisn þinni fram að andláti. Umhyggja þín og væntumþykja umvafðir okkur alla tíð. Við vorum lánsöm að eiga þig og þakklát fyrir hversu lengi við fengum að hafa þig hjá okkur. Við erum þakklát hjúkrunarfólki Lundar fyrir alla þá alúð og nærgætni sem þér var sýnd.

Hvíl þú í friði, amma mín, og þakka þér fyrir allt.

Þín

Jóhanna Valgerður.