Valgerður Daníelsdóttir Hún ólst upp við túnaslátt, engjaheyskap og heybandslestir. Þá var hesturinn ennþá þarfasti þjónninn. Þá var kembt, spunnið og prjónað alla vetrardaga, en einn las upphátt fyrir alla hina úr bókunum frá Lestrarfélaginu. Foreldrarnir voru mætar manneskjur, en hún átti fleiri góða að, t.d. ömmuna, nöfnu sína. "Hún gaf mér fyrstu stígvélaskóna og var mér afskaplega góð," sagði Vala. Þar að auki voru allar sögurnar og kvæðin, sem hún flutti okkur krökkunum. Þetta er kjarni þess, sem hún elst upp við. Umhyggja var henni í blóð borin. Valgerður kynntist ung manni sínum, Jóhanni Sverri Kristinssyni, þau hófu búskap í Gíslholti en fluttu fljótlega að Ketilsstöðum í Holtum. Á þessum stöðum fæddist þeim myndarlegur barnahópur. Bú þeirra reyndist arðsamt, enda fylgdust þau vel með gagnlegum nýjungum. Börnin unnu við bú foreldra sinna meðan þau uxu úr grasi. Síðar sóttust barnabörnin eftir sumardvöl hjá ömmu og afa, enda var þeim fagnandi tekið og þau fengu að takast á við lifandi og vandasöm verk.

Þau hjón munu hafa hætt búskap á Ketilsstöðum fyrr en ella vegna þess að heilsubrestur gerði vart við sig hjá þeim. Þau fluttu um tíma til Reykjavíkur, en þegar þau nálguðust ellilaunaaldur settust þau að á Hellu. Þá var Hjúkrunarheimilið Lundur tekið til starfa. Þar hafði sú nýbreytni verið tekin upp að einstaklingar fengu að byggja sín eigin hús í námunda og fengu notið öryggis frá stofnuninni.

Þetta fyrirkomulag reyndist þeim vel. Jóhann andaðist 1988. Valgerður býr þá ennþá nokkur ár í húsi þeirra, en síðustu árin inni á Lundi. Ég held að þessi kona hafi verið hamingjubarn. Alla tíð var hún umvafin umhyggju sinna nánustu. Og sambúð þeirra hjóna virðist hafa verið einstaklega farsæl. Vala og Jói áttu nokkur börn og jafnmörg tengdabörn og svo stóran hóp barna barna.

Myndir af þessu fólki þöktu veggi herbergisins. Ótrúlega samstæður hópur. Sjónin dofnaði að lokum, en hún sá fólkið sitt jafnt skýrt fyrir því og einu sinni sagði hún "og sjáðu, hér erum við fimm Völurnar".

Þó hún hafi að lokum misst heilsuna og orðið öðrum alveg háð var hún óendanlega þakklát þeim sem hjálpuðu henni. Hún fylgdist vel með öllu og vissi hvað tímanum leið. Hún sagðist vera tilbúin að kveðja. Hún sagðist vita að hún fengi góðar móttökur í nýrri veröld hjá ástvinum sínum sem áður voru farnir

Hennar verður lengi minnst.

Steindór Daníelsson.