Bjargey Bíbí Kristjánsdóttir Þegar ekið er suður með Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi svo sem fjóra kílómetra er komið að ofurlitlum skrúðgarði sem lætur ekki mikið yfir sér. Þetta er garður sem Bíbí ræktaði upp úr malargryfju sem Blönduósbær átti. Frá því að snjóa leysti á vorin og fram á fyrstu snjóa á haustin í yfir tvo áratugi gekk hún á hverjum degi fram og til baka til þess að rækta garðinn sinn. Þar var athvarf hennar hvernig sem viðraði og félagsskap hafði hún af stærstu brúðunum sínum sem fengu líka að vera í þessari jarðnesku paradís. Hún var stolt af honum og mátti líka vera það. Gaman var að heimsækja hana í þennan unaðsreit. Hætt er við að á köldu vori taki þessi garður seint að gróa og fáir munu geta hirt um hann úr því að Bjargey Kristjánsdóttir, eins og Bíbí hét fullu nafni, er ekki lengur til þess.

Eljusemi hennar og þrautseigja við að brjóta land til ræktunar verður að teljast einstakt framtak og það hafa Blönduósbúar kunnað að meta. Þeir girtu fyrir hana landið og fyrir nokkrum árum hlaut hún sérstaka viðurkenningu bæjarins fyrir garðinn.

Bíbí átti líka sínar unaðarstundir við lestur góðra bóka. Hún las alls kyns efni en hún gat samt verið vandlát í vali sínu. Á síðari árum hafði hún mestan áhuga á þjóðlegum fróðleik og ferðabókum. Hún kom sér upp miklu safni af brúðum. Ýmist fékk hún þær að gjöf eða saumaði þær sjálf. Fyrir nokkrum árum gaf hún Þjóðminjasafni Íslands mest allt brúðusafn sitt.

Bíbí fæddist á Hofsósi og bjó í föðurhúsum fram að þrítugsaldri. Vegna heilsubrests fór hún á Héraðssjúkrahúsið á Blönduósi þar sem hún kynntist Ingibjörgu Sigurðardóttur, sem vann í þvottahúsi hælisins. Mikill og góður kunningsskapur tókst með þeim Ingibjörgu, sem þá var orðin ekkja. Um sinn fékk Bíbí inni hjá henni í Aðalgötunni. Síðan eignaðist Bíbí lítið hús í bænum og bjó þar í sjálfsmennsku í nokkur ár. Þær vinkonurnar fóru saman í mörg ferðalög um landið og þeirra ferða nutu þær báðar. Ingibjörg er nú vistmaður á sjúkrahúsinu í hárri elli.

Þegar heilsunni tók að hraka fór Bíbí aftur á Héraðssjúkrahúsið og naut þar einstakrar umönnunar síðustu árin allt þar til sá sjúkdómur, sem enginn fékk við ráðið, lagði hana að velli. Við fundum það glöggt þegar við sátum við sjúkrabeð hennar áður en yfir lauk að hún hafði ætíð verið í góðum höndum lækna og hjúkrunarfólks sjúkrahússins.

Bíbí var trú yfir litlu í þessu lífi en hún vildi láta aðra njóta þess með sér sem hún mat mest. Nú heyrir það sögunni til að hún hringi í okkur á mánudagskvöldum um hálfáttaleytið.

Blessað sé það fólk sem hjálpaði Bíbí í lífsbaráttunni og hjúkraði henni í veikindum hennar. Blessuð sé minning Bíbíar.

Áslaug og Ólafur Jens.