Kristján J. Guðmundsson Í dag, 22. maí, verður vinur minn, Kristján J. Guðmundsson, eða Stjáni Slipp, eins og hann oftast var kallaður, jarðsunginn frá Stykkishólmskirkju.

Ég átti því láni að fagna að kynnast Kristjáni í ársbyrjun 1976, er ég tók við framkvæmndastjórn Bátatryggingar Breiðafjarðar. Átti ég upp frá því mikið og mjög gott samstarf við Kristján. Segja má að Kristján hafi leitt mig inn í starfið með allri sinni þekkingu á skipum, búnaði þeirra og byggingu. Við Kristján unnum því mikið saman við að skoða og meta báta hér á árum áður og voru því samfara margar ferðir farnar. Við þessi störf naut ég þekkingar og kunnáttu Kristjáns sem seint verður til fulls þakkað.

Það er svo ótal margt sem kemur upp í huga minn þegar ég sest niður og ætla að koma nokkrum minnispunktum á blað um þennan vin minn, að það verður vandi úr að velja. En svo er líka hitt, að sumt eigum við bara tveir.

Við Kristján áttum ótal aðrar stundir saman en bara við störf. Á meðan þrek og heilsa entist var farið í eins og einn veiðitúr á ári. Má þar nefna í Miðfjörðinn, Laxá í Dölum, til Samúels í Djúpadal og svo að sjálfsögðu í Skoravíkurá á Fellsströnd. Allar þessar ferðir veittu okkur báðum mikla ánægju. Það var útiveran, puðið og svo ekki síst að glíma við fiskinn. Kristján var mikið fyrir að veiða hvort heldur var á stöng eða með byssu, enda mikill veiðimaður og hafði hann alveg sérstakt lag á að renna fyrir fisk þar sem mér var ómögulegt að fá fisk.

Kristján var mikill grínisti og hafði margar góðar sögur að sega enda var ávallt glens og gaman á góðum dögum með honum.

Nú skilja leiðir að sinni og er mér þá efst í huga hjartans þökk fyrir það að hafa fengið að ganga veginn um stund með þér og þökk fyrir sérlega góð kynni.

Ég vil votta öllum aðstandendum samúð mína. Guð blessi minningu um góðan mann.

Gissur.